Bólusetningar gegn COVID-19 hér á landi halda áfram í vikunni en til stendur að bólusetja um það bil 25 þúsund einstaklinga í þessari viku. Um það bil 14 þúsund manns munu fá bóluefni Pfizer, ýmist fyrri eða seinni skammt, 6500 fá bóluefni Janssen, sem þarf aðeins einn skammt af, og 4000 fá seinni skammt af bóluefni Moderna.

Að því er kemur fram í tilkynningu á vef Heilsugæslunnar verður bólusett á höfuðborgarsvæðinu með bóluefni Pfizer á þriðjudag, með bóluefni Janssen á miðvikudag, og með bóluefni Moderna á miðvikudag. Samkvæmt tilkynningunni eru fleiri bólusetningardagar ekki staðfestir í vikunni.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir í samtali við Fréttablaðið að fram undan séu stórir dagar í bólusetningum, bæði í þessari viku og þeirri næstu. Bólusetningarnar séu mikil áskorun fyrir heilsugæsluna þar sem margir koma að því og því taki það skiljanlega nokkurn tíma að bólusetja alla.

Ekki mikið um að fólk mæti ekki

Aðspurður um hvort það sé eitthvað um að fólk hafni bólusetningu, líkt og kom upp fyrr í vor með bóluefni AstraZeneca, segir Þórólfur svo ekki vera. „Það eru alltaf einhverjir sem mæta ekki og svo framvegis og koma jafnvel seinna, en það er ekki mikið,“ segir Þórólfur.

Engir hömlur eru á því hverjir geta fengið bóluefni Pfizer, Moderna, og Janssen, en konur yngri en 55 ára munu ekki fá bóluefni AstraZeneca. Að sögn Þórólfs er verið að vinna niður aldurslistann með bóluefni AstraZeneca en þegar allir eldri en 55 ára hafa verið bólusettir verður bóluefnið notað á karlmenn yngri en 55 ára.

Bindur vonir við að áætlunin gangi eftir

Samkvæmt bólusetningaráætlun stjórnvalda verða allir fullorðnir landsmenn búnir að fá alla vega einn skammt af bóluefni fyrir lok júlí. Í lok maí verða allir í fyrstu sjö forgangshópunum komnir með einn skammt og á þá aðeins eftir að bólusetja starfsfólk skóla og félags- og velferðarþjónustu, einstaklinga í félagslega- og efnahagslega erfiðri stöðu, og alla aðra sem óska eftir bólusetningu.

Þórólfur segist binda vonir um að það gangi upp og samhliða bólusetningum verði hægt að aflétta takmörkunum verulega. „Ef við fáum nóg af bóluefni og bóluefnið virkar vel og allt gengur eins og við vonumst til, þá finnst mér vera góðar vonir um að þetta gangi eftir.“