Öllum samkomutakmörkunum innanlands verður aflétt fyrir júnílok, gangi ný áætlun heilbrigðisráðherra eftir. „Ég er nægilega vongóð um að þetta gangi eftir, svo vongóð að ég ákvað að kynna þessa áætlun," segir Svandís Svavars­dótt­ir heil­brigðisráðherra sem kynnti afléttingaráætlun í fjórum áföngum á ríkisstjórnarfundi í morgun.

Hún segir að stór skref séu tekin með þessari áætlun: „Þetta gefur okkur skýrari verkfæri til að fara inn í sumarið."

Fyrirvarar eru settir varðandi framgang bólusetninga, hve hratt gengur að bólusetja landsmenn og um afhendingu bóluefnis. Einnig eru fyrirvara um mat sóttvarnarlæknis um stöðu faraldursins á hverjum tímapunkti, segir Svandís.

Veruleg rýmkun á samkomutakmörkunum

Stefnt er að því að nú strax í byrjun maímánaðar verði fjölda­tak­markanir vegna Covid-19 rýmkaðar verulega og miðast við 100 manns. Í lok mánaðarins verði svo miðað við 200 manns eða þegar 50 prósent landsmanna hefur fengið fyrri sprautu bólusetningar.

Þá standa vonir til að öllum takmörkunum innanlands verði aflétt í lok júní eða þegar um 75 prósent þjóðarinnar hafa fengið a.m.k. einn bóluefnaskammt.

Fyrsta skrefið þegar tekið

Fyrsta skref afléttingar hefur þegar verið tekið með tilslökunum á samkomutakmörkunum og í skólastarfi sem tóku gildi 15. apríl síðastliðinn. Þá voru fjöldatakmörk aukin úr 10 í 20 manns, opnað var fyrir starfsemi sundlauga, líkamsræktarstöðva o.fl. með takmörkunum, hægt var að hefja sviðslistastarf á ný og sitthvað fleira.

Áætlað er að snemma í maí verði unnt að stíga annað skref til rýmkunar á innanlandstakmörkunum þegar a.m.k. 35 prósent landsmanna hafa fengið bólusetningu.

Aflétting sóttvarnartakmarkana felur m.a. í sér að tveggja metra nálægðarreglan verði rýmkuð
Fréttablaðið/Anton Brink

Nálægðarmörkin færð niður í einn meter

Síðari hlutann í maí er gert ráð fyrir að a.m.k. 50 prósent landsmanna hafi fengið bólusetningu og að bólusetning einstaklinga með undirliggjandi sjúkdóma sé komin vel á veg. Þá verði unnt að rýmka fjöldatakmarkanir til muna, sem verði einhvers staðar á bilinu 100 til 1000 manns. Samhliða verði nálægðarmörk færð úr tveimur metrum í einn.

Áætlunin hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagna.

Áætlun heilbrigðisráðherra i fjórum þrepum
Mynd/Heilbrigðisráðuneytið