Ólga hefur ríkt meðal heimamanna í Mývatnssveit eftir að landeigendur í Reykjahlíð bönnuðu að rúgbrauð yrði bakað í holum í Bjarnarflagi án skriflegs leyfis. Stór orð hafa fallið en nú hyllir undir lausn í deilunni sem heimamenn hafa kallað „stóra rúgbrauðsmálið“.
Landeigendur auglýstu í héraðsmiðlinum Hlaupastelpunni fyrir skemmstu að í ljósi þess að óviðkomandi væru farnir að auglýsa og selja aðgang að rúgbrauðsholum í Bjarnarflagi yrði allur rúgbrauðsbakstur óheimill án skriflegs leyfis.
Fannst sumum heimamönnum sem bakað hafa brauð sín í flaginu í áratugi illa vegið að sínu frelsi. Dæmi voru um að frændfólk Reykhlíðunga, sem eiga ekki land að Bjarnarflagi, lýsti yfir opinberlega að það myndi hætta bakstri á þessum slóðum. Ákvörðun landeigenda var sögð til skammar, hún væri stælar og einnig var því haldið fram að landeigendur vildu með ákvörðun sinni mismuna þeim íbúum sem ekki ættu land. Aðrir en landeigendur mættu híma utangarðs er kæmi að gjöfum jarðhita og náttúru.
Á Facebook var rætt hvort heppilegra hefði verið að ræða við þá sem seldu aðgang að rúgbrauðsholunum fremur en að birta orðsendinguna. Það hefði verið betri lausn en „vera með þau leiðindi að banna, banna, banna,“ eins og sagði á Facebook-síðunni Mývatnssveitin.

Guðrún María Valgeirsdóttir, landeigandi í Reykjahlíð, segist líta svo á sem friður sé að skapast í málinu. Hún segir að aðilar í atvinnubakstri hafi gengið of langt. Ekki sé verjandi að stefna fólki í stórum stíl á svæði þar sem sé jarðhiti hvað þá selja eitthvað í óleyfi.
„Þeir sem við vissum að væru að baka þarna í óleyfi hafa beðist afsökunar og ég á von á að málið leysist. Þeir töldu sig hafa leyfi til að baka en þeir höfðu ekki leyfi til að selja aðgang, stefna fólki inn á svæðið eða taka á móti fólki í stórum stíl,“ segir Guðrún María, sem vill þó ekki nafngreina brotlega.
Um neikvæð viðbrögð við auglýsingunni segist Guðrún María velta fyrir sér hvort menn telji sig hafa meiri rétt vegna nálægðar svæðisins við þéttbýlið í Reykjahlíð.
„En viljum við ekki öll að eignarréttur sé virtur?“ spyr Guðrún María.
Kolbrún Ívarsdóttir hefur lengi bakað brauð í Bjarnarflagi og haft tekjur af. Hún segist hafa fengið leyfi til að stunda baksturinn áfram. Hún vonast til að friður skapist á ný um þann einstæða bakaraofn sem Bjarnarflagið er.
