Ólga hefur ríkt meðal heima­manna í Mý­vatns­sveit eftir að land­eig­endur í Reykja­hlíð bönnuðu að rúg­brauð yrði bakað í holum í Bjarnar­flagi án skrif­legs leyfis. Stór orð hafa fallið en nú hyllir undir lausn í deilunni sem heima­menn hafa kallað „stóra rúg­brauðs­málið“.

Land­eig­endur aug­lýstu í héraðs­miðlinum Hlaupa­stelpunni fyrir skemmstu að í ljósi þess að ó­við­komandi væru farnir að aug­lýsa og selja að­gang að rúg­brauðs­holum í Bjarnar­flagi yrði allur rúg­brauðs­bakstur ó­heimill án skrif­legs leyfis.

Fannst sumum heima­mönnum sem bakað hafa brauð sín í flaginu í ára­tugi illa vegið að sínu frelsi. Dæmi voru um að frænd­fólk Reyk­hlíðunga, sem eiga ekki land að Bjarnar­flagi, lýsti yfir opin­ber­lega að það myndi hætta bakstri á þessum slóðum. Á­kvörðun land­eig­enda var sögð til skammar, hún væri stælar og einnig var því haldið fram að land­eig­endur vildu með á­kvörðun sinni mis­muna þeim í­búum sem ekki ættu land. Aðrir en land­eig­endur mættu híma utan­garðs er kæmi að gjöfum jarð­hita og náttúru.

Á Face­book var rætt hvort heppi­legra hefði verið að ræða við þá sem seldu að­gang að rúg­brauðs­holunum fremur en að birta orð­sendinguna. Það hefði verið betri lausn en „vera með þau leiðindi að banna, banna, banna,“ eins og sagði á Face­book-síðunni Mý­vatns­sveitin.

Guðrún María Valgeirsdóttir, landeigandi í Reykjahlíð, segir að aðilar í atvinnubakstri hafi gengið of langt.
Mynd/Aðsend

Guð­rún María Val­geirs­dóttir, land­eig­andi í Reykja­hlíð, segist líta svo á sem friður sé að skapast í málinu. Hún segir að aðilar í at­vinnu­bakstri hafi gengið of langt. Ekki sé verjandi að stefna fólki í stórum stíl á svæði þar sem sé jarð­hiti hvað þá selja eitt­hvað í ó­leyfi.

„Þeir sem við vissum að væru að baka þarna í ó­leyfi hafa beðist af­sökunar og ég á von á að málið leysist. Þeir töldu sig hafa leyfi til að baka en þeir höfðu ekki leyfi til að selja að­gang, stefna fólki inn á svæðið eða taka á móti fólki í stórum stíl,“ segir Guð­rún María, sem vill þó ekki nafn­greina brot­lega.

Um nei­kvæð við­brögð við aug­lýsingunni segist Guð­rún María velta fyrir sér hvort menn telji sig hafa meiri rétt vegna ná­lægðar svæðisins við þétt­býlið í Reykja­hlíð.

„En viljum við ekki öll að eignar­réttur sé virtur?“ spyr Guð­rún María.

Kol­brún Ívars­dóttir hefur lengi bakað brauð í Bjarnar­flagi og haft tekjur af. Hún segist hafa fengið leyfi til að stunda baksturinn á­fram. Hún vonast til að friður skapist á ný um þann ein­stæða bakara­ofn sem Bjarnar­flagið er.

Ólga hefur verið í Mývatnssveit vegna málsins.
Fréttablaðið/Pjetur