„Ís­lenskt sam­fé­lag á að vera manneskju­legt sam­fé­lag sem lætur ekki 200 manns bíða í röð á fimmtu­dags­eftir­mið­degi eftir matar­gjöfum. Ís­lenskt sam­fé­lag á ekki að reka börn eða barna­fjöl­skyldur af er­lendum upp­runa úr landi,“ sagði Rósa Björk Brynjólfs­dóttir, þing­maður utan flokka, í um­ræðum um stefnu­ræðu for­sætis­ráð­herra á þing­fundi í kvöld. Mikil von­brigði væru að sjá að laga­frum­varp dóms­mála­ráð­herra um út­lendinga væri á þing­mála­skrá þing­vetrarins.

„Það er til mæli­kvarði á hversu manneskju­leg sam­fé­lög eru. Hann er sá hvernig við komum fram við þau sem minnst mega sín, hvort við út­rýmum fá­tækt, hvort við styðjum við þau sem þurfa stuðning til að eiga sér mann­sæmandi líf með reisn. Hvernig við tökum á móti fólki sem til okkar leitar eftir al­þjóð­legri vernd undan stríðs­á­tökum, of­sóknum, sára­fá­tækt eða af­leiðingum lofts­lags­breytinga,“ sagði Rósa.

Hún benti á að ný­leg skoðana­könnun um af­stöðu fólks til sam­borgara sinna af er­lendum upp­runa sýni glöggt að meiri­hluti al­mennings vilji ekki þá hörku sem sýnd er í út­lendinga­málum hér á landi. Það sýni einnig sam­taka­máttur þeirra þúsunda sem mót­mæltu brott­rekstri barna úr landinu á síðustu vikum.

„Það eru því stór von­brigði að sjá laga­frum­varp dóms­mála­ráð­herra um út­lendinga á þing­mála­skránni. Frum­varp sem er harð­lega gagn­rýnt af mann­réttinda­sam­tökum. Við þurfum meiri mann­úð í þennan mála­flokk, nokkuð sem við höfum beðið eftir í þessi þrjú ár síðan ríkis­stjórnin gaf fyrir­heit um það. Á meðan hefur þurft að berjast af krafti fyrir því, hvað eftir annað að börn sem hafa fest hér rætur og myndað tengsl, verði ekki rekin úr landi og úr örygginu.“

Hún sagði heims­far­aldurinn þá hafa af­hjúpað þann raun­veru­leika að allir á Ís­landi væru alls ekki í sama báti eins og fjár­mála­ráð­herra hafi lýst yfir fyrir nokkru. „Við erum hins vegar öll í sama storminum, eins og ein mesta hetja nú­tímans Greta Thun­berg minnti okkur á, hvort sem um er að ræða kóróna­veirufar­aldurinn, á­hrif lofts­lags­breytinga eða efna­hags­kreppu,“ sagði Rósa.

„Ef það er eitt­hvað sem við ættum að læra af heims­far­aldrinum er það aukin sam­kennd, sam­taka­máttur, um­burðar­lyndi og náunga­kær­leikur. En við þurfum líka að á­kveða hvernig við viljum byggja upp sam­fé­lagið okkar á ný. Til þess erum við hér. Það sam­fé­lag verður að vera byggt upp með grænum lausnum til fram­tíðar og mann­úð­legum leiðum fyrir okkur öll. Ís­land hefur öll tæki­færi til þess.“