Alls verða um 25 þúsund manns bólu­settir í vikunni með þeim fjórum bólu­efnum sem hafa þegar hlotið skil­yrt markaðs­leyfi hér á landi en ein­staklingar 60 ára og eldri, fólk með undir­liggjandi sjúk­dóma, og heil­brigðis­starfs­menn verða þar bólu­settir.

„Þetta er stór vika,“ segir Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir í sam­tali við Frétta­blaðið og bætir við að hann vonist til að hægt verði að halda á­fram á þessum hraða í fram­haldinu. Sjálfur er Þór­ólfur meðal þeirra sem verða bólu­settir í vikunni, þar sem hann er eldri en 60 ára.

Þór­ólfur mun þar fá bólu­efni AstraZene­ca en eins og staðan er í dag er bólu­efnið að­eins notað hjá ein­stak­lingum í eldri aldurs­hópum vegna mögu­legra auka­verkana sem fela í sér myndun blóð­tappa. Þór­ólfur segist ekki óttast slíkar auka­verkanir og kveðst hlakka til.

„Hættan leynist víða. Ég held að hættan sé miklu minni af AstraZene­ca bólu­efninu, að eitt­hvað gerist eftir það, heldur en maður lendi til að mynda bara bíl­slysi þegar maður er að keyra heim til sín,“ segir Þór­ólfur léttur í bragði.

Í heildina hafa nú rúm­lega 32.600 ein­staklingar verið full­bólu­settir gegn CO­VID-19 með bólu­efnum Pfizer/BioN­Tech, Moderna og AstraZene­ca auk þess sem bólu­setning er hafin hjá rúm­lega 48.100 ein­stak­lingum til við­bótar.

Tölur helgarinnar vonbrigði en kalla ekki á hertar aðgerðir

Að sögn Þór­ólfs hafa enn sem komið er ekki nægi­lega margir verið bólu­settir til að ná fram ó­næmi í sam­fé­laginu og koma þar með í veg fyrir út­breiðslu veirunnar og mögu­legar hóp­sýkingar. Þetta sjáist í tölum dagsins en sex greindust innan­lands í gær, allir utan sótt­kvíar. Fimm eru nú á sjúkra­húsi en enginn á gjör­gæslu.

„Þessar tölur eru náttúru­lega von­brigði og sér­stak­lega þegar horft er á tölurnar föstu­dag og laugar­dag þar sem enginn var utan sótt­kvíar, en þessar tölur koma í sjálfu sér ekki mikið á ó­vart því að við vitum að veiran er þarna úti í sam­fé­laginu,“ segir Þór­ólfur.

Smitrakning er enn í gangi í tengslum við smit gær­dagsins auk þess sem rað­greining sýnanna liggur ekki enn fyrir. Hluti þeirra smita sem greindust komu upp í Þor­láks­höfn og er talið lík­legt að þau smit tengist til­fellum sem komu upp á Sel­fossi fyrir skemmstu.

Að­spurður um hvort búist sé við fleiri smitum næstu daga segir Þór­ólfur að það sé erfitt að segja en fólk sé á­fram hvatt til að passa sig hvert sem það fer. Hann telur nú­verandi stöðu ekki kalla á hertar að­gerðir og er ekki með minnis­blað í smíðum að svo stöddu. „Ekki nema að þetta fari eitt­hvað að halda á­fram og við sjáum ein­hverja aukningu á þessum smitum.“