Jarðskjálfti af stærðinni 3,6 varð varð klukkan 19:20 í kvöld sautján kílómetra norðvestur af Gjögurtá. Veðurstofa Íslands fékk tilkynningar um að skjálftin hafi fundist í Ólafsfirði.

Bjarki Kaldalóns Friis, náttúruvásérfræðingur Veðurstofunnar, segir þetta stærsta skjálftann síðan 27. júní, þegar skjálfti af stærð 4,1 mældist.

Frá því að hrinan hófst þann 19. júní hefur sjálfvirkt jarðskjálftakerfi Veðurstofunnar staðsett tæplega tíu þúsund skjálfta. Þrír voru yfir 5 að stærð.

Mynd: Veðurstofa Íslands

Óvissustig í gildi

Óvissustig er enn í gildi á Norðausturlandi vegna jarðskjálftahrinunnar. Veðurstofan og Almannavarnir biðja fólk á svæðinu að fylgjast vel með aðstæðum.

Rannsóknir benda til þess að innistæða sé fyrir skjálfta að stærð 7. Ef að kæmi til slíks skjálfta er hugsanlegt að hann valdi grjóthruni og skriðum eða jafnvel flóðbylgjum. Hættan á skriðuföllum er ekki einungis bundin við norðanverðan Tröllaskaga og Flateyjarskaga heldur einnig austur á Melrakkasléttu.