Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, segir það stóran sigur í máli Erlu Bolladóttur að ríkið skuli ákveða að áfrýja ekki niðurstöðu héraðsdóms en á sama tíma komi sú ákvörðun honum ekki á óvart.
Með úrskurðinum sem héraðsdómur felldi úr gildi á þriðjudaginn var Erlu synjað um endurupptöku á hennar þætti í Guðmundar- og Geirfinnsmálum í febrúar 2017. Hún er sú eina af þeim sex einstaklingum sem hlutu dóma í Guðmundar- og Geirfinnsmálum árið 1980, sem ekki hefur fengið mál sitt endurupptekið.
„Það hefði verið mjög veikt mál hjá ríkinu að fá þessum dómi héraðsdóms Reykjavíkur breytt, það er að segja að niðurstöðu til. Dómurinn er vel rökstuddur og er í samræmi við það sem að gerðist í Landsrétti fyrir áramót um heildarsýn á þessa málsmeðferð á tímabilinu 1977 til 1980,“ segir Ragnar.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sagði í viðtali við Fréttablaðið í dag að það væri vilji ríkisins að endanleg niðurstaða fáist í þessi mál sem fyrst og til skoðunar séu leiðir til að koma málinu í flýtimeðferð hjá endurupptökudómi með það fyrir augum.
Myndi klára málin
Óskað hafði verið eftir því að gengið yrði beint til samninga við Erlu, í stað þess að fara með málið fyrir endurupptökudóm, en Katrín segir að vegna þess að ekki liggi fyrir sýknudómur í máli hennar sé örðugt að bjóða fram bætur þegar dómurinn liggur enn óhaggaður.
Spurður út í þetta segir Ragnar að ef hann sæti í ríkisstjórn myndi hann haga þessu á annan hátt.
„Ég myndi í stól ríkisstjórnarinnar gera þetta með öðrum hætti. Ég myndi ljúka þessum málum í eitt skipti fyrir öll. Þetta er að verða hálfrar aldar gamalt,“ segir hann og að hann óttist það að það muni taka langan tíma að ljúka málinu fyrir fullt og allt með þessu áframhaldi.
„Íslenska ríkinu hefur gengið mjög illa að halda uppi vörnum. Ríkið hefur barist alveg upp á líf og dauða í þessum málum, fyrir Landsrétti og í héraði í málum Kristjáns Viðars og Guðjóns Skarphéðinssonar, en ekki haft neinn vinning í þeim málum. Þvert á móti hafa röksemdir ríkisins hrunið eins og hver önnur spilaborg og þess vegna er það sérkennilegt ef ríkið ætlar að halda þessu áfram,“ segir Ragnar en að á sama tíma sé það rétt að það felli enginn úr gildi dóm Hæstaréttar frá 1980 nema dómstóllinn sjálfur
En er þetta ekki sigur í ykkar máli?
„Jú, þetta er að sjálfsögðu stór sigur,“ segir Ragnar og að niðurstaða héraðsdóms ætti að hafa áhrif á endurupptökudómstólinn því hann ætti ekki að geta gengið gegn niðurstöðu héraðsdóms því hann er ekki æðri dómstóll en héraðsdómur Reykjavíkur.
„Þess vegna ætti niðurstaða héraðsdóms að hafa grundvallaráhrif á endurupptökudómstólinn og þá er Hæstiréttur eftir og Hæstiréttur á erfiða sögu í þessu máli frá 1980,“ segir Ragnar og að þótt svo að dómararnir sem dæmdu upprunalega í málinu starfi ekki lengur við dómstólinn þá verði erfitt fyrir dómstólinn að dæma í þessu máli.