Snemma í morgun, eða að klukkan 2.44 að staðar­tíma, fyrir rúm­lega tveim klukku­stundum mældist jarð­skjálfti 8 á richter í Perú. Skjálftinn átti upp­runa sinn í um 114 kíló­metra dýpi í 80 kíló­metra fjar­lægð frá þorpinu Lagunas og í um 158 kíló­metra fjar­lægð frá næstu stærri borg sem er Yu­rima­gas.

Sam­kvæmt frétt AP News hefur ekki verið greint frá dauðs­föllum en þar segir að jarð­skjálftar sem eigi upp­runa sinn nærri yfir­borði jarðar valdi yfir­leitt meiri skaða.

Innan­ríkis­ráðu­neyti Perú birti neyðar­kall á sam­fé­lags­miðlum í morgun. Þau skráðu skjálfta upp á 7,2 á richter. Í höfuð­borg Perú, Lima, hljóp fólk út af heimilum sínum. Eitt­hvað var um raf­magns­leysi víða í borgum nærri Amazon skóginum. Skjálftinn fannst einnig í Kolumbíu.

Á Twitter má sjá myndir frá borginni Yurimagas og má sjá að einhver hús hafa fallið saman og segir á Twitter innanríkisráðuneytis Perú að lögregla sé á götum til að róa fólk

Liggur á eldhringnum

Jarð­skjálftar eru mjög tíðir í Perú en landið liggur á svo­kölluðum eld­hring sem er eld­virkasta svæði jarðarinnar og þar sem flestir jarð­skjálftar verða. Eld­hringurinn er svæði sem er nær um­hverfis Kyrra­hafið, hringurinn er í raun hálf­hringur sem er um 40.000 km langur. Þar eru stað­sett 452 eld­fjöll, eða um 75 prósent allra eld­fjalla í heiminum.

Eld­hringurinn nær frá Nýja Sjá­landi, eftir Indónesíu endi­langri, að Filipps­eyjum, eftir endi­löngu Japan, Kúril­eyjum og Aleuteyjum, niður vestur­strönd Kanada og Banda­ríkjanna, eftir Mið-Ameríku og Suður-Ameríku eftir Andes­fjöllum. Meðal þekktustu eld­fjalla á hringnum eru Kraka­tá, Pína­túbó og St. Helens fjalli. Nánar um eldhringinn á heimasíðu National Geographic.