Borgarbúar fundu eflaust fyrir miklu jarðskjálfta sem reið yfir höfuðborgarsvæðið fyrir stuttu. Jarðskjálftinn reið yfir klukkan 16:56 og fyrsta mat veðurstofunnar á stærð skjálftans var 4,7. Upptök skjálftans eru 1,8 kílómeter Suðaustan við Þrengslin (austn við Lambafell) og dýpið talið vera 0,3 kílómetrar.

Í tilkynningu frá veðurstofu er sagt að búast megi við eftirskjálfavirkni í kjölfarið.

Fréttablaðið hafði samband við Ragnar Stefánsson. jarðskjálftafræðing, sem segir að nokkuð langt sé síðan að svona stór skjálfti mælist á þessum slóðum, en þetta sé þó mikið skjálftasvæði. Þá segir hann sömuleiðis það hafa verið viðbúið að jörð skjálfi á svæðinu, skjálftin sé framhald af jarðskjálftum sem voru á Hengilssvæðinu, þar skalf jörð árið 2020 og mældist einn skjálftin 3,6 að stærð þá.

Það hafi mátt búast við hreyfingu vestur frá Hengilssvæðinu að sögn Ragnars. Sjálfur kvaðst Ragnar ekki hafa fundið fyrir skjálftanum sem fannst vel á höfuðborgarsvæðinu.

Veðurstofan hefur yfirfarið mælingar og telja þau skjálftann nú hafa verið 4,2 af stærð, en ekki 4,7 eins og fyrstu mælingar bentu til.

Fréttin hefur verið uppfærð

Fréttablaðið/Skjáskot
Fréttablaðið/Skjáskot