Stór íbúðabygging hrundi í loftárásum Ísraelshers á Gaza í nótt. Íbúar fengu viðvörun fyrirfram um að yfirgefa bygginguna áður en sprengjum var varpað á heimili þeirra að því er fram kemur á vef Reuters.

Að minnsta kosti 35 Palestínumenn og fimm Ísraelar hafa fallið í átökum síðustu daga. Fjölmiðlaveitan og ljósmyndastofan Getty birti eftirfarandi myndband af árásunum á íbúðabygginguna.

Mikil ólga hefur verið á svæðinu undanfarnar vikur. Í Palestínu braust út mikil reiðialda þegar hæstiréttur í Ísrael tók fyrir mál um hvort vísa skyldi palestínskum fjölskyldum á brott til að koma Ísraelum að.

Upp úr sauð í aðdraganda Jerúsalem-dagsins þar sem mikil átök brutust út á milli Palestínumanna og ísraelskra lögreglusveita. Hamas samtökin, herská palestínsk múslimasamtök skutu loftskeytum að Jerúsalem í fyrradag eftir að lögreglan í Ísrael neitaði að yfirgefa svæðið í kringum Al-Asqa moskuna, einn heilagasta staðinn í Islam.

Joe Truzman hjá fréttaveitunni Long War Journal birti myndband af loftvarnarskeytum Ísraelsmanna við sprengjum frá Hamas samtökunum.

Ísraelsmenn lýstu því yfir að þeir hefðu drepið sextán meðlimi Hamas samtakanna.