„Stór hópur ungmenna sem var hættur í neyslu féll í COVID-faraldrinum og er aftur kominn í neyslu,“ segir Berglind Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Foreldrahúss. „Þetta er mjög viðkvæmur hópur sem þolir illa að vera ekki í rútínu og fá ekki stuðning.“

Erfitt er að festa reiður á því hversu stór hópur hefur snúið aftur í neyslu. Foreldrahús lokaði húsakynnum sínum í mars og fóru viðtöl þá fram í gegnum fjarfundabúnað, eftir opnun í byrjun maí hefur verið mikil ásókn í úrræðið.

„Krakkar sem eru í neyslu láta ekki neinn faraldur trufla sig. Þetta er hópur sem var tæpur fyrir, það var erfitt að halda þeim rútínu, mæta á AA fundi, mæta í viðtöl til ráðgjafa, stunda íþróttir, vinnu og skóla og þau mátti ekki við þessu,“ segir Berglind. „Dyrnar galopnuðu inn í neysluheiminn. Fram að þessu hafði þeim tekist að halda sér frá.“

Berglind Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Foreldrahúss.

Um er að ræða ungmenni allt frá 13 ára aldri upp yfir tvítugt. „Tímabilið frá 18 til 22 ára er mjög erfiður aldur. Þau eru orðin lögráða og því er erfitt að snúa þeim til baka. Ólögráða börn sem eru í fikti og neyslu halda gjarnan að það sé hægt að djamma út í hið óendanlega, þeim finnst þetta spennandi, en eru oft að flýja eitthvað óþægilegt“ segir Berglind. „Samskiptin á heimilinu hafa oft ekki bætt úr skák, vandamál sem voru fyrir hafa vaxið sem hafa ýtt börnunum frá heimilinu og þau þá leitað í neyslu.“

Neyslan getur verið margs konar, allt frá kannabisreykingum yfir í Spice.

Berglind brýnir fyrir foreldrum ungmenna í vanda að leita sér ráðgjafar því það sé alltaf möguleiki að snúa þeim aftur.

Valgerður Rúnarsdóttir, framkvæmdastjóri lækninga hjá SÁÁ, segir of snemmt að segja til um hversu stór hópur hafi leitað aftur í neyslu í faraldrinum.

„Af þeim sem hafa komið inn eftir faraldurinn þá er augljóst að þessi umhverfisáhrif hafa gert hluti verri fyrir þá,“ segir Valgerður.