Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir, skrifar í minnisblaði til skóla- og frístundaráðs að flest barna sem hafa greinst í Reykjavík hafi verið fremur einkennalítil.

Flest börnin fá væg einkenni; hálssærindi, hósta og hita. Í flestum tilfellum eru þetta skammvinn veikindi sem líða hjá á tveimur til þremur, kannski fjórum dögum.

Valtýr bendir á að það sé býsna stór hópur þessara barna sem er algerlega einkennalaus og fái aldrei nein einkenni. Skóla- og frístundaráð hittist í vikunni til að fara yfir stöðu mála á vettvangi skóla- og frístundastarfs í Reykjavík á tímum COVID-19, þar sem minnisblaðið var lagt fram.

Áheyrnarfulltrúar skólastjóra og kennara í grunnskólum lögðu fram bókun á fundinum, um að starfsmenn hefðu upplifað kvíða og vanlíðan í þessu ástandi.

„Mikilvægt er að hugað verði að starfsfólki við þessar aðstæður á raunsæjan hátt, það verður að finna fyrir jákvæðum stuðningi í önnum dagsins auk þess að fá upplýsingar um stöðu mála inni á sínum vinnustöðum,” segir í bókuninni. Verkefni grunnskólanna í þessum aðstæðum sé stórt og enn allsendis óvíst um framtíðina.

„Mikilvægi hreinskiptinnar, jákvæðrar og öflugrar mannauðsstjórnar er algert um leið og allar aðgerðir verða að miðast við að hraða því ferli að samfélagssmit náist niður og að neyðarstigi sé aflétt.“ –