„Það eru rúmlega 28 þúsund börn á aldrinum 12 til 18 ára hér á landi. Um fjögur þúsund þeirra eru í fikti eða neyslu á vímuefnum,“ segir Berglind Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Foreldrahúss. „Þetta er nánast jafn stór hópur og í hverjum árgangi.“

Tölurnar koma frá barnaverndum sveitarfélaga og rannsóknamiðstöðinni Rannsóknir og greining. Í fyrra voru alls 13.264 tilkynningar. Á árunum 2019 til 2020 fjölgaði samanlögðum fjölda tilkynninga um eitt þúsund.

Berglind telur þó að alls ekki öll tilvik séu tilkynnt og það sama eigi við um ofbeldi, það er mikið og líklegt að það sé algengara en tölur gefa til kynna. „Ofbeldi gegn börnum er áhættuþáttur fyrir ofbeldi seinna meir, því hef ég miklar áhyggjur af fjölda tilkynninga um ofbeldi gegn börnum, en þær voru 3.827 árið 2021,“ segir hún. „Ofbeldi er áfall sem getur leitt til vímuefnanotkunar sem að sama skapi getur leitt til siðrofs og ofbeldis. Þetta er hringur sem þarf að rjúfa, til þess þarf að ráðast að rót vandans sem getur verið misbrestur í uppeldi.“

Andleg líðan ungmenna versnaði í kórónaveirufaraldrinum og þunglyndiseinkenni jukust. Slíkt eykur líkur á neyslu vímuefna. Nú er Spice orðið algengt meðal unglinga sem eiga auðveldara en áður með að fela neysluna. Bæði vegna þess að foreldrar þekkja ekki þetta vímuefni auk þess sem það er lyktarlaust.

Berglind óttast að hér verði fjölskyldur þar sem margar kynslóðir glími við sama vandann.

„Ég hef verið með marga unga foreldra í viðtölum hjá mér, margir hafa eignast barn í von um að hætta í neyslu. Fíknin er enn til staðar, sumir foreldrar geta athafnað sig tiltölulega eðlilega í þjóðfélaginu og verið samt í neyslu, en þetta getur auðveldlega leitt til alvarlegra truflana á uppeldi og bitnar þá á börnunum, framtíðinni okkar,“ segir hún.

„Á sama tíma var tilkynnt um 5.614 börn sem höfðu orðið fyrir vanrækslu.“ Vanræksla er vítt hugtak sem nær yfir bæði að skilja börn lengi eftir eftirlitslaus og að tryggja ekki að þau hafi réttan búnað í skóla.

Berglind segir margt gott á dagskrá stjórnvalda en það vanti alltaf meira fjármagn. „Ég er orðin dálítið pirruð á skilningsleysi og skorti á fjármunum fyrir þennan málaflokk. Við erum sífellt að sjá fólk fara í gegnum dómstólana og eða undir læknishendur vegna geðrænna kvilla sem rekja má beint til neyslu, sem hefði verið hægt að grípa.“