Aðstæður í Skötufirði, þar sem kona og ungt barn hennar létust eftir að bíll þeirra hafnaði í sjónum, voru þannig að ekkert vegrið var milli vegarins og sjávar.

„Vegagerðin leggur mikla áherslu á umferðaröryggisaðgerðir, bæði á þekktum slysastöðum en einnig á stöðum þar sem ekki hafa orðið slys en ljóst að mjög illa myndi fara ef slys yrði. Stór hluti vegakerfisins uppfyllir ekki þær kröfur um öryggi sem gerðar eru til nýrra vega,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Hann segir að að á tæplega 120 kílómetra kafla á Djúpvegi, milli Mjóafjarðarvegar og Flugvallarvegar í Skutulsfirði, hafi verið metið árið 2013 að vantaði 75 til 80 kílómetra af vegriðum. Fyrir allmörgum árum hafi þörfin á landsvísu verið allt að 450 kílómetrar, þar af 40 prósent á Vestfjörðum. Ýmislegt hafi þó gerst síðan.

„Í kjölfar þessarar úttektar hafa vegrið þegar verið sett upp á nokkrum stöðum en mikið er enn óunnið,“ segir G. Pétur. Innan þessa kafla sé vegurinn um Skötufjörð þar sem banaslys varð um helgina, það sé frá Hjöllum að Hvítanesvegi sem alls séu rúmlega 25 kílómetrar.

„Á þessum rúmlega 25 kílómetra kafla Djúpvegar um Skötufjörð var metið að þyrfti 19 kílómetra af vegriðum,“ segir G. Pétur. Í fyrra hafi verið sett upp vegrið innarlega í austanverðum Skötufirði, innan við Hvalskurðará. „Haldið verður áfram að setja upp vegrið eftir því sem fjárveitingar leyfa og hættulegustu staðirnir verða í forgangi, hér eftir sem hingað til.“

Þá segir G. Pétur að gera megi ráð fyrir að uppsett vegrið kosti um 12 milljónir á kílómetra. Fjárveitingar til umferðaröryggisaðgerða á landsvísu hafi verið 500 milljónir á ári þar til á síðasta ári þegar aukning hafi orðið og 650 milljónir fengist til verkefnisins.

Uppsett vegrið eru sögð kosta um tólf milljónir á hvern kílómetra.