„Stór hluti Íslendinga trúir því að líkur á hryðjuverkum hér á landi aukist með auknum fjölda innflytjenda,“ segir Margrét Valdimarsdóttir, lektor við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri. Hún mun flytja erindi á Félagsfræðideginum í dag, þar sem hún fjallar um viðhorf til innflytjenda og flóttafólks og óttann við fjölgun afbrota og aukna hryðjuverkaógn.

Margrét segir íslenskt samfélag hafa gjörbreyst á síðustu tuttugu árum, mikil aukning hafi orðið í fjölda bæði flóttafólks og innflytjenda. Þá segir hún almennt viðhorf Íslendinga til innflytjenda gott en að um leið og kafað sé dýpra komi í ljós skoðanir sem geti valdið áhyggjum.

Margrét segir breytingar á hugarfari mikilvægar.

„Um fjörutíu prósent Íslendinga trúa því að hryðjuverkaógn aukist hér með auknum fjölda innflytjenda og flóttafólks frá löndum þar sem múslimar eru í meirihluta og það er áhyggjuefni,“ segir Margrét.

„Þessi viðhorf og þessi ótti hefur síðan áhrif á það hversu jákvætt fólk er gagnvart því að taka á móti flóttafólki og rannsóknir sýna að því neikvæðara sem viðhorf er til flóttafólks og innflytjenda í móttökulandinu því ólíklegra er að þau aðlagist samfélaginu,“ segir hún.

„Þegar innflytjendur eiga erfitt með að samlagast samfélaginu, það er einmitt eitthvað sem við ættum að hafa áhyggjur af,“ segir Margrét. Hún segir áhrif fjölgunar innflytjenda geta verið jákvæð eða neikvæð.

„Þegar maður skoðar það í mismunandi löndum heimsins þá sér maður að það fer mikið eftir því hvernig móttökurnar eru og viðhorf samfélagsins. Það að innflytjendur samlagist samfélaginu skiptir miklu máli,“ segir Margrét og bætir við að aðrar breytur en þær að einstaklingar séu innflytjendur eða flóttafólk hafi líklega meiri áhrif á afbrotahegðun, svo sem tekjur og menntun.

„Það hefur sýnt sig til dæmis í Svíþjóð þar sem opinberar tölur benda til þess að innflytjendur séu líklegri til að brjóta af sér en aðrir, að þrátt fyrir að þar sé almennt góð innflytjendastefna sé fólk ekki að ná að aðlagast sænsku samfélagi. Margir hafa litla menntun og búa í fátækum hverfum og það eru auðvitað þættir sem tengjast afbrotum,“ segir Margrét.

Aðspurð hvað sé til ráða segir Margrét breytingar á hugarfari mikilvægar. „Við þurfum að átta okkur á því að við búum í breyttu samfélagi og því betur sem tekið er á móti flóttamönnum og innflytjendum því betra er það fyrir samfélagið í heild,“ segir hún.

Erindi Margrétar verður flutt á Zoomá hádegi í dag, þegar Félagsfræðidagurinn verður haldinn hátíðlegur í þriðja sinn. Ítarlegri grein um efnið mun birtast í Stjórnmál og stjórnsýsla um miðjan desember.