Að sögn sérfræðinga við Háskóla Íslands er líðan hinsegin ungmenna í íslensku skólakerfi ekki alltaf góð. Líta má til skýrslu sem unnin er upp úr rannsókn frá 2018, sem sýnir að stór hluti nemenda hafði orðið fyrir áreitni vegna kynhneigðar, kyngervis eða kyntjáningar.

Hinsegin menntunarfræði er námskeið sem nú er kennt í fjórða sinn við Háskóla Íslands. Að sögn umsjónarkennara námskeiðsins, Írisar Ellenberger og Auðar Magndísar Auðardóttur, er þetta í fjórða sinn sem námskeiðið er kennt.

„Hinsegin menntunarfræði snýst í grunninn um að gefa fólki tækifæri á að fá ákveðin tæki, tól og sjónarhorn úr hinsegin fræðum til að beita á nám og frístundastarf,“ segir Íris.

Auður Magndís bætir við að námskeiðið sé valnámskeið og opið fyrir marga, ekki aðeins fólk innan menntavísindasviðs. „En kjarninn er fólk sem er að læra að verða grunnskólakennarar,“ segir hún. „Það koma síðan alltaf nokkrir nemendur sem eru starfandi kennarar, jafnvel með tíu eða tuttugu ára starfsreynslu. Fólk sem er í námsleyfi og notar það í þennan kúrs. Svo er alltaf hópur af skólastjórum líka, sem er dásamlegt. Þessi hópur kemur inn með svo mikla reynslu.“

Ekki nóg að þekkja hugtökin

Auður Magndís bendir á að margir haldi að það að skilja hinsegin málefni snúist um að þekkja öll hugtökin. En það sé þó aðeins pínulítið brot af heildarmyndinni. Hinsegin menntunarfræði snúist um ákveðið sjónarhorn og að bera kennsl á það hvenær sé óvart verið að gera ráð fyrir að allir séu gagnkynhneigðir, sís-kynja, og ekki trans. Og hvernig megi bæta námsefni og fleira í umgjörð náms með það fyrir augum.

Íris tekur undir þetta og segir að einnig sé tekist á við að búa til örugg rými fyrir hinsegin ungmenni. Auður bætir við að þekkingin gagnist ekki aðeins hinsegin nemendum, heldur öllum nemendum sem séu á skjön við staðalmyndir um kynin, hvort sem þau eru hinsegin eða ekki. „Ég held að fólk komi oft inn með hugmyndir um að læra þessi helstu hugtök, og vonast eftir þægilegum og einföldum lausnum. En svo komast þau fljótt að því að auk þess að læra og gera einfalda hluti þurfi þau að breyta stemningunni, vinna djúpa vinnu með menninguna í skólanum eða frístundaheimilinu. Að rýna í gildin sem eru til staðar og hvernig sé hægt að breyta þeim.“

Íris segir kjarnann í hinsegin menntunarfræðum vera valdadýnamík milli starfsfólks og nemenda og fræðigreinin geri kröfu á fólk að skoða til hvers menntun sé og til hvers menntastofnanir séu. Þegar fólk sé komið með þau gleraugu á nefið fari það að skoða hluti sem það hafi ekki tekið eftir áður.

Aðspurðar um stöðu hinsegin hópa í íslensku menntakerfi, er það skoðun Írisar og Auðar Magndísar að gera megi betur. „Þessi hugmynd um að við séum fremst á þessu sviði getur verið til trafala líka. Þá heldur fólk að ekki þurfi að tala um þetta, og að krakkarnir viti þetta,“ segir Íris. „Sís-gagnkynhneigt fólk heldur að það sé ekki lengur neitt í andrúmsloftinu sem er skaðlegt.“

Líðan hinsegin ungmenna mætti vera betri

Að sögn Írisar er líðan íslenskra hinsegin ungmenna í skólakerfinu ekki alltaf góð. Í könnun á líðan hinsegin ungmenna í skólaumhverfi, sem byggð er á GLSEN‘s 2015 National School Climate Survey könnuninni, þýddri og staðfærðri af Menntavísindasviði HÍ, GLSEN og Samtökunum ‘78, kom í ljós að þriðjungur nemenda greindi frá því að finna til óöryggis í skólanum síðasta árið vegna kynhneigðar sinnar. Þá fann fimmtungur til óöryggis vegna kyntjáningar sinnar. Þriðjungur hinsegin nemenda greindi frá því að hafa verið áreittur munnlega vegna kynhneigðar sinnar og fjórðungur hinsegin nemenda hafði verið áreittur munnlega vegna kyntjáningar sinnar.

Eitt af hverjum átta hinsegin ungmennum hafði orðið fyrir líkamlegri áreitni á undangengnu ári vegna persónueinkenna og algengasta orsök áreitis var kynhneigð. Þá sögðust um sex prósent aðspurðra hafa verið líkamlega áreitt vegna kyngervis eða kyntjáningar. Einn af hverjum tuttugu hinsegin nemendum hafði orðið fyrir líkamsárás í skólanum síðasta skólaárið vegna persónueinkenna.

Þátttakendur höfðu náð að minnsta kosti 13 ára aldri, stunduðu nám á unglingastigi grunnskóla eða í framhaldsskóla á Íslandi veturinn 2016-2017 og, orðrétt úr skýrslu: „… skilgreindu sig sem lesbíur, homma, tví- eða pankynhneigð, eða af einhverri kynhneigð annarri en gagnkynhneigð eða litu á sig sem trans eða með aðra kynvitund en sís-kynja.“.

Námskeið í hinsegin menntunarfræðum við Háskóla Íslands verður næst kennt eftir tvö ár. Aðspurðar segja Íris og Auður Magndís ýmislegt hægt að gera til að fræðast og styðja við hinsegin hópa í menntakerfinu. Til dæmis sé Mannréttindastofa Reykjavíkurborgar með Regnbogavottun þar sem boðin er fræðsla fyrir vinnustaði borgarinnar.