Stór hluti ferðamannanna sem lenti í hrakningum við rætur Langjökuls í ferð með ferðaþjónustufyrirtækinu Mountaineers of Iceland er þegar farinn úr landi.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins ræddu við ferðamennina í gær á fjöldahjálparmiðstöðinni í Gullfosskaffi þar sem hlúð var að fólki eftir átakamikla ferð um Langjökul. Ferðamennirnir fengu bæklinga frá Rauða krossinum í gær og upplýsingar um við hverju mætti búast. Læknar frá Heilbrigðisstofnun Suðurlands tóku einnig á móti hópnum í Gullfosskaffi snemma í gærmorgun.

Þeim var bent á að Rauði krossinn væri þeim til halds og traust og sagt að hafa samband við áfallateymið samdægurs og daginn eftir fyrir andlega hjálp.

Enginn ferðamaður hefur sett sig í samband við áfallateymi Rauða krossins eftir gærdaginn en þetta staðfestir Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða krossins, í samtali við Fréttablaðið.

„Margir fóru úr landi í gær. Við tókum ákvörðun um að leita ekki til þeirra í dag en við ráðlögðum þeim að hafa samband við okkur ef þeim þætti það nauðsynlegt,“ segir Brynhildur en ferðamennirnir fengu mikla hjálp í gær. Áföll leggjast mismunandi á fólk og telur Brynhildur að ferðamennirnir vilji eflaust komast heim til sín. Það séu eðlileg viðbrögð við óeðlilegum aðstæðum.

Rekstrarstjóri Mountaineers of Iceland segir afdrifarík mistök hafa orðið til þess að 39 manna hópur ferðamanna sat fastur í átta klukkustundir á Langjökli í gær ásamt tíu starfsmönnum. Ferðaþjónustufyrirtækið ákvað að leggja af stað í vélsleðaferðina upp á jökul með hópnum þrátt fyrir veðurviðvaranir.

Um 200 manns tóku þátt í leitar- og björgunarstörfum. Björgunarsveitir þurftu að selflytja vélsleðahópinn af Langjökli niður að Gullfossi og síðan til Reykjavíkur í gær. Margir voru mjög kaldir og höfðu óttast um líf sitt og sinna í háskaförinni. Börn og ungmenni voru meðal ferðamannanna, þau yngstu um sex og tíu ára gömul.

Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú ferðalag Mountaineers of Iceland. Ómar Valdimarsson lögmaður sagði í samtali við Fréttablaðið að ljóst væri að bótaskylda sé í máli fólksins sem lenti í ógöngunum en hann kveðst reiðubúinn að veita fólkinu ókeypis aðstoð.