„Það er ekkert búið að gefa neitt út en það óhætt að segja að maður bíði með öndina í hálsinum eftir frekari fregnum. Það verður áhugavert að fylgjast með vendingum þessa máls í dag.“

Þetta segir Bergvin Oddsson, annar eigandi 900 Grillhúss í Vestmannaeyjum, aðspurður um óvissuna sem ríkir um hvort Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum fari fram þetta árið í ljósi þess að von er á hertum aðgerðum stjórnvalda vegna nýrrar bylgju kóróna­veiru­smita.

Ríkisstjórn ræðir í dag nýjar tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis, viku fyrir stærstu ferðahelgi ársins.

Óhætt er að segja að íbúar Vestmannaeyja fylgist spenntir með frekari tíðindum eftir að Þjóðhátíð var blásin af á síðasta ári.

Um er að ræða gríðarlega mikilvæga tekjulind fyrir ÍBV en um leið veitingarekstur á svæðinu.

„Það er ekkert víst að öll fyrirtækin í Vestmannaeyjum þrauki af annað ár án Þjóðhátíðar. Þessi helgi er yfirleitt að skila tuttugu til þrjátíu prósentum af heildartekjum ársins hjá veitingastöðunum og yfirleitt aldrei undir fimmtán prósentum,“ segir Bergvin og ályktar að aflýsing myndi verða samfélaginu í Vestmannaeyjum dýr.

„Það eru líka margir íbúar sem hafa aukatekjur af hátíðinni, ýmist með því að leigja út húsnæði eða sem vinna á hátíðinni.“