Mikil ferða­helgi er fram undan, margir hverjir eru loksins að komast í frí og því er ferða­hugur kominn í marga. „Við getum sagt að um sunnan­vert landið, þar verður veðrið,“ segir Sigurður Þ. Ragnars­son, veður­fræðing sem einnig er þekktur undir nafninu Siggi Stormur, í sam­tali við Frétta­blaðið.

„Hæsti hitinn um helgina verður ná­lægt 17-18 stigum, það verður á Suð­austur­landi. Suður­landið og Suð­vestur­landið hafa vinninginn á laugar­dag og Suður­landið á sunnu­dag. Í sjálfu sér er prýði­legt veður víða og úr­koman er í lág­marki á Suður- og Vestur­landi,“ segir Siggi

Siggi segir Norður­landið muni ein­kennast af vætu­gangi. „Það er ekki annað að sjá en að Norður­landið fái sinn skerf af vætu, sér­stak­lega framan af helginni en svo gæti þetta snúist við eftir helgi,“ segir hann.

Siggi bendir þó að þetta er staðan eins og spárnar líta út núna, og það gæti vel breyst. „Þær eru sæmi­lega sam­hljóma og þegar það er svo­leiðis þá er maður bjart­sýnn á að þær rætist,“ segir hann.

Siggi segir mestu birtuna verða á svæði frá Kirkju­bæjar­klaustri í austri og alveg vestur að Snæ­fells­nesi.