„Við erum búin að tala saman lengi. Þetta eru búnar að vera strembnar viðræður og ég geri ráð fyrir að dagurinn í dag muni skipta verulegu máli. Þetta skiptir ekki bara máli fyrir þá sem vinna í karphúsi, heldur skiptir þetta máli fyrir fólkið í landinu.“

Þetta sagði Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í Morgunútvarpinu í dag. Hann telur að dagurinn í dag verði gríðarlega mikilvægur í kjaradeilu SGS (samflot iðn- og tæknimanna) og Samtaka atvinnulífsins.

„Fyrsti í aðventu er búinn, jólin eru framundan. Það er óvissa víða, án þess að ég sé eitthvað að tromma það upp, og ég les salinn þannig að það sé vilji mjög víða og við þurfum að ljúka þessari vinnu.“ segir hann og bætir við fólk vilji vissu um það hvernig kaup og kjör muni þróast á næsta ári.

Halldór segir að þeir sem komi að samningaborðinu séu í raun með eitt markmið, það sé að passa hagsmuni og ná ásættanlegri niðurstöðu.

„Tilgangurinn er að skapa grunn að einhverri sátt.“ segir hann og bætir við „Hvorki markmið né tilgangur Samtaka atvinnulífsins er að berja niður laun í landinu, síður en svo. Markmið okkar er að ná kjarasmningum við verkalýðsfélögin hringinn í kringum í landið, sem eru sjálfbærir til langs tíma.“

Hann fullyrðir að samtökin vilji hvorki ganga og stutt eða langt, markmiðið sé að skapa sátt í samfélaginu.

„Ég held að það muni skýrast í dag“

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins var sammála því að nú væri ögurstundin að renna upp.

„Jú en ögurstundin er í raun og veru ekki alveg hvort þetta verður klárað á einhverjum nokkrum klukkutímum eða ekki. Heldur meira hvort menn séu að fara inn í slíkan pakka. Hvort þetta muni taka tíu tíma, alla helgina eða hvað, það getur komið í ljós. En það kemur allavega í ljós hvort haldið verði áfram eða ekki. Ég held að það muni skýrast í dag,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið.

Halldór Benjamín taldi í viðtali sínu við Rás 2 í morgun að talsverður vilji væri víða í samfélaginu til þess að ná saman. Aðspurður hvort hann væri sama hugar sagði Vilhjálmur það verða að koma í ljós á fundinum.

„Það verður dálítið að skýrast hjá Samtökum atvinnulífsins þegar við mætum. Það er alltaf þannig að þegar tveir deila þá þurfa báðir að ná saman svo hægt sé að leysa deiluna. Það er ekki bara annar aðilinn sem leysir hana, það verður að vera vilji beggja megin,“ sagði Vilhjálmur og bætti við „ef ég skynja samtölin rétt sem ég hef átt við SA að undanförnu þá skynja ég vilja til þess að gera atlögu að þessu til þess að það sé hægt að leysa þetta. En það verður að koma í ljós hvort það dugi til eða ekki.“