Þann 28. júní árið 1969 réðust lögreglumenn inn á Stonewall-krána í Greenwich Village í New York. Stonewall var hinsegin bar og var þetta ekki í fyrsta sinn sem lögreglan réðst inn á slíka bari í borginni.

Á þessum degi voru þó viðbrögð gesta og eigenda staðarins ólík því sem vant var. Fólkið á staðnum reis upp gegn lögreglunni og grýtti lögreglumennina með smápeningum, flöskum og steinum. Á endanum neyddist lögreglan til þess að loka sig inni á staðnum á meðan hópur hinsegin fólks stækkaði og stækkaði fyrir utan og reyndi að brjóta sér leið inn.

Óeirðalögregla mætti á staðinn og tókst henni að lokum að bjarga lögreglumönnunum og stöðva uppþotið. Síðar um kvöldið komu þúsundir mótmælenda aftur saman við Stonewall-krána svo aftur kom til uppþota. Mótmælin héldu svo áfram út vikuna.

Fyrsta Pride ári síðar

Fyrsta Pride-gangan var haldin í New York þann 28. júní árið 1970, til að minnast þess að ár var liðið frá uppþotinu á Stonewall. Réttindabarátta hinsegin fólks tók kipp eftir uppþotið á Stonewall og er atburðurinn talinn marka upphaf réttindabaráttu hinsegin fólks á Vesturlöndum eins og við þekkjum hana.

Í fyrstu Pride-göngunni var gengið frá Christopher Street í Central Park og tóku þúsundir manna þátt í göngunni.

Allt frá árinu 1970 hafa Pride-göngur verið haldnar á hverju ári í New York og fljótlega tóku þær að breiðast út víðs vegar um heiminn.

Fréttablaðið/Getty

Hinsegin hátíð 1999

Fyrsta hinsegin hátíðin, Hinsegin dagar, var haldin hér á Íslandi árið 1999 með hátíðardagskrá á Ingólfstorgi. Samtökin ‘78 stóðu fyrir hátíðinni og á hana mættu um 1.500 manns. Árið síðar var fyrsta Pride-gangan haldin á Íslandi. Árin 1993 og 1994 höfðu þó verið farnar göngur í Reykjavík þar sem krafist var jafnréttis, þær voru kallaðar frelsisgöngur homma og lesbía. Talið er að um tólf þúsund manns hafi mætt á fyrstu Pride-gönguna árið 2000.

Frá því að fyrsta Pride-gangan var haldin hér á landi hafa Hinsegin dagar verið haldnir árlega nema síðustu tvö ár þar sem þá voru í gildi samkomutakmarkanir vegna Covid-19. Hinsegin dagar eru orðin ein stærsta hátíð landsins og fram að faraldrinum mættu að meðaltali um 100 þúsund manns í miðbæinn til að fylgjast með göngunni og styðja við hinseginleikann.

Hátíðin í ár hefur verið með afar fjölbreyttri dagskrá en hún hófst 2. ágúst. Í dag fer gangan sjálf fram og leggur hún af stað frá Hallgrímskirkju klukkan 14.

Páll Óskar Hjálmtýsson er þekktur fyrir sína stóru og íburðarmiklu vagna í göngunni.
Fréttablaðið/Hanna