Jens Stol­ten­berg, aðal­ritari NATO, sagði öll lýð­ræðis­ríki eiga rétt á að sækja um aðild að banda­laginu á blaða­manna­fundi í höfuð­stöðvum þess í Brussel í dag. Úkraínsk stjórn­völd greindu frá því í dag að landið hefði form­lega sótt um skjóta inn­göngu í NATO eftir að Vla­dimír Pútín Rúss­lands­for­seti stað­festi ó­lög­lega inn­limun fjögurra úkraínska héraða í Rúss­land.

„Öll lýð­ræðis­ríki eiga rétt á að ganga í banda­lagið, dyr NATO eru alltaf opnar fyrir nýjum banda­mönnum en á­kvarðanir um slíkt eru teknar af öllum okkar með­limum,“ sagði aðal­ritarinn en tjáði sig ekki efnis­lega um um­sókn Úkraínu um skjóta inn­göngu í banda­lagið.

Pútín hefur lengi haldið því fram að NATO sé beinn aðili að á­tökunum en því hafnaði Stol­ten­berg ein­dregið. „NATO er ekki þátt­takandi í á­tökunum“, sagði hann en stutt yrði við bar­áttu Úkraínu­manna eins lengi og þörf er á.

„Við munum á­fram styðja Úkraínu dyggi­lega eins lengi og það verst á­rásar­hneigð Rúss­lands. Eins lengi og þörf krefur,“ sagði Stol­ten­berg og í­trekaði að Úkraína hefði fullan rétt á að endur­heimta land­svæði sem her­numin eru af Rússum.

„Ef Rúss­land leggur niður vopn kemst á friður. Ef Úkraína leggur niður vopn heyrir það sögunni til sem full­valda þjóð,“ sagði hann enn fremur. „Orð­ræða Pútíns um kjarna­vopn er hættu­leg að sjálf­sögðu, við fylgjumst náið með og Rúss­land ætti að átta sig á því að kjarn­orku­stríð ætti ekki nokkru sinni að í­huga,“ sagði Stol­ten­berg einnig.

„Allt land­svæði ríkis okkar verður frelsað undan þessum ó­vini - þessum ó­vini ekki einungis Úkraínu, heldur einnig lífsins sjálfs, mann­kyns, laganna og sann­leikans,“ sagði Vol­ó­dómír Selenskíj Úkraínu­for­seti í á­varpi í dag.

„Rúss­land veit þetta nú þegar. Það finnur styrk okkar. Það sér að það er hér, í Úkraínu, þar sem við sönnum kraft gilda okkar. Og það er þess vegna sem það hefur hraðar hendur, skipu­leggur þennan farsa með til­raun til inn­limunar, reynir að stela ein­hverju sem til­heyrir því ekki, vill endur­skrifa söguna og marka ný landa­mæri með morði, pyntingum, kúgun og lygum,“ sagði hann.

„Úkraína mun ekki leyfa það,“ sagði Selenskíj enn fremur. Friði yrði einungis komið á með því að „reka á brott her­nemana.“ Stjórn­völd væru reiðu­búin að ganga að samninga­borðinu á „jöfnum, heið­virðum, mann­sæmandi og sann­gjörnum“ grund­velli. Það væri hins vegar ó­mögu­legt er Pútín væri enn við völd.

„Við erum að verja lýð­ræðið, grunn­gildi frelsis og allan hinn sið­menntaða heim,“ sagði Denís Shmí­hal, for­sætis­ráð­herra Úkraínu er greint var frá um­sókn Úkraínu um inn­göngu í NATO.