Sænski aðgerðarsinninn Greta Thunberg segist stolt af því að vera einhverf. Hún var greind með einhverfu þegar hún var 12 ára gömul og segir hún það oft koma fólki á óvart vegna þess að hún passi ekki inn í ákveðna staðalímynd.

Hún birti færslu í gær í tilefni af alþjóðlegum degi einhverfu þar sem hún sagði sorglegt að enn sé lítill skilningur meðal almennings um einhverfu.

„Enn eiga margir, og þá sérstaklega stúlkur, enn eftir að fá greiningu. Ástæðan er oftar en ekki skilningsleysi og fordómar. Enn þann dag í dag telja sumir að einhverfa sé sjúkdómur sem hamlar daglegu lífi þeirra sem greinast,“ skrifar Greta.

Í gær var blái dagurinn haldinn hátíðlegur. Markmið bláa dagsins er að fá landsmenn alla til að sýna einhverfum börnum stuðning sinn og fræðast um einhverfu. Með aukinni vitund og þekkingu byggjum við upp samfélag sem er betur í stakk búið til að skilja þarfir einhverfra, virða framlag þeirra til samfélagsins og meta fjölbreytileikann að verðleikum.

Blár Apríl, styrktarfélag barna með einhverfu, stendur fyrir deginum en félagið safnar fé allt árið sem rennur óskert til styrktar málefnum sem hafa bein áhrif á börn með einhverfu og fjölskyldur þeirra.