Nýtt félag Evrópusambandssinna, Evrópuhreyfingin, hefur opnað vefsíðu og safnar nú meðlimum. Markmiðið er að tala fyrir inngöngu í Evrópusambandið og knýja á um þjóðaratkvæðagreiðslu.

„Evrópuhreyfingin er félag þeirra sem telja tímabært að þjóðin fái að taka afstöðu til þess hvort Ísland haldi áfram viðræðum um inngöngu í Evrópusambandið,“ segir Jón Steindór Valdimarsson, varaþingmaður Viðreisnar, sem er formaður félagsins.

Jón segir að hugmyndin hafi komið upp í byrjun ársins og félagið var svo formlega stofnað þann 9. maí, á Evrópudeginum. Félagið hefur síðan farið rólega af stað og sniðið sér stakk eftir vexti. Þann 1. desember var opnuð vefsíða, ­evropa.is, og þar getur fólk bæði skráð sig í félagið og fræðst um það sem er á döfinni. Jón segir að sú dagsetning, fullveldisdagurinn, hafi heldur ekki verið tilviljun. Félagið vilji minna á að í fullveldinu felist það að verja því skynsamlega í samstarfi við aðrar fullvalda þjóðir.

Evrópuhreyfingin er rekin á sjálfboðaliðagrundvelli og mun tala fyrir og auglýsa ákveðna stefnu. Jón segir það ekki ætlunina að félagið verði málfundafélag þar sem fólk tekst á um Evrópumál. „Við munum halda fram okkar sjónarmiðum, aðrir halda fram sínum,“ segir hann.

Alþingi samþykkti að sækja um inngöngu í Evrópusambandið í júlí árið 2009 og viðræður hófust ári síðar. Þeim viðræðum var svo siglt í strand af íslenskum stjórnvöldum og slitið með ákvörðun Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra árið 2015.

Merki Evrópuhreyfingarinnar.

„Í kosningunum árið 2013 var því lofað að þjóðin yrði spurð álits um hvort haldið yrði áfram eða ekki en það var svikið eftirminnilega,“ segir Jón. „Það var sent lítið lettersbréf til Evrópusambandsins um að viðræðunum væri slitið en hvorki þing né þjóð kom að þeirri ákvörðun.“

Spurður um mögulegt framhald viðræðna segir Jón að eftir sem tíminn líður verði meiri vinna að byrja upp á nýtt. Margt hafi hins vegar ekkert breyst og Ísland hafi fylgt þróuninni í regluverki Evrópu í gegnum EES-samninginn. Vissulega séu stórar spurningar sem séu óafgreiddar. Þetta ferli allt, það er tvær þjóðaratkvæðagreiðslur, viðræður og aðlögun, gæti mögulega tekið frá tveimur upp í fimm eða sex ár, eftir því hvernig viðræðurnar myndu ganga og hversu mikið væri í gangi í Evrópu.

Jón segir EES-samninginn ágætan, í hann vanti hins vegar þau póli­tísku áhrif sem Ísland geti haft þó fámennt sé. Íslendingar séu ekki við borðið þar sem ákvarðanirnar séu teknar og séu einungis þiggjendur í samstarfinu. Ísland hafi hins vegar margt fram að færa.

„Evrópusambandið vill styrkja sig og það er liðsauki af lýðræðis- og velmegunarríki eins og okkur sem styðjum við sömu gildi. Það veitir ekki af því að þau lönd sem eru sama sinnis þétti raðirnar,“ segir Jón. Hann segir að stríðið í Úkraínu sé sterk áminning um hvers vegna Evrópusambandið var stofnað, sem friðarbandalag. „Því miður er þetta enn þá einn mikilvægasti þátturinn í þessari samvinnu, að halda friðinn.“