Það eru fimm drengir í sjötta bekk í Háteigsskóla sem skipa Fréttastofu áhugamanna um pólitík, en þeir birta reglulega þætti á rás sinni á myndbandsveitunni YouTube. Það má segja að meðlimir fréttastofunnar séu orðnir nokkuð sjóaðir í þáttagerðinni þrátt fyrir ungan aldur.

Fréttastofan var stofnuð árið 2018 af þeim Magnúsi Sigurði Jónassyni, Arnmundi Sighvatssyni og Matthíasi Atlasyni þegar þeir voru einungis níu ára. Stuttu síðar gekk grínistinn Úlfur Marinósson til liðs við þá og Snorri Sindrason bættist svo í hópinn árið 2019.

Þeir réðust ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og fjallaði þeirra fyrsta sería um borgarstjórnarkosningarnar árið 2018, sem verður að teljast nokkuð áhugavert viðfangsefni hjá níu ára drengjum.

Þeir segja samstarfið ganga afskaplega vel og að þeir skipti verkum jafnt á milli sín.

„Ég vissi ekki sérstaklega mikið um pólitík þegar við byrjuðum, ég vildi bara vera með af því við erum vinir,“ segir Matthías.

„Magnús vissi eiginlega mest um pólitík,“ segir Arnmundur.

„Já, ætli það ekki,“ viðurkennir Magnús og heldur svo áfram: „Ég fylgdist með borgarstjórnarkosningunum 2011. Þá var ég bara fjögurra ára.“

Upphaflega stóð til að gera einn þátt um borgarstjórnarkosningarnar en þeir urðu að lokum sex talsins.

„Eftir það gerðum við þætti um rannsóknarblaðamennsku, sem okkur langar að fjalla meira um,“ segir Arnmundur.

„Síðan gerðum við þætti um öll ráðuneytin,“ segir Matthías.

Fréttamennirnir ungu tóku sig því til og gengu á fund allra ráðherra í ríkisstjórn Íslands og fengu að spyrja þá spjörunum úr. Strákarnir hika þegar þeir eru inntir eftir því hvaða ráðherra hafi verið skemmtilegastur.

„Megum við nokkuð segja það?“ spyr Magnús.

„Ég væri skemmtilegastur, en ég er ekki ráðherra,“ segir Matthías.

Þeir eru allir nokkuð sammála um að skemmtilegast hafi verið að tala við Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Fyrir helgina kom út nýjasta serían, Æðsta sætið. Hún fjallar um forsetakosningarnar í ár. Strákarnir viðurkenna að þeir hafi vonast eftir fleiri framboðum svo þættirnir gætu orðið fleiri. Líkt og góðum þáttargerðarmönnum sæmir vilja þeir ekkert gefa upp um með hvorum frambjóðandanum þeir halda.

„En pönnukökurnar á Bessastöðum voru alveg rosalega góðar,“ segir Snorri.

„Safinn líka,“ bætir Magnús við.

„Ég mætti í flippuðum sokkum, sérstaklega fyrir Guðna,“ segir Úlfur.

„Kleinurnar voru samt dálítið harðar. Mér fannst samt gaman að koma á Bessastaði þar sem ég er mikill áhugamaður um arkitektúr,“ segir Matthías.

Þeir segja að það hafi verið mjög gaman að hitta Guðmund Franklín.

„Við fengum reyndar engar pönnukökur en við fengum vatn,“ segir Magnús.

„Það var samt allt í lagi, af því við fengum svo fallegt útsýni,“ segir Matthías.

Strákarnir eru strax byrjaðir að leggja drög að næstu seríu.

„Að sjálfsögðu, það eru alþingiskosningar á næsta ári,“ segir Magnús brattur.