Elvíra Tintore Kleist og Hjalti Hjaltason stofnuðu fataverslunina Elvíra á Klapparstíg þar sem farið er nýstárlega leið í kaup og sölu á notuðum fötum og einstaklingar greiða ekki fyrir hverja flík heldur mánaðargjald.

Margrét Erla Maack ræddi við þau Hjalta og Elvíru í Fréttavaktinni í kvöld en það þarf að greiða mánaðargjald til að taka þátt í þessu nýstárlega verkefni.

„Þetta virkar þannig að maður kemur með gömlu fötin sín og fær stig fyrir þau. Fötin sem þú notar ekki lengur, þú skilar þeim í búðina og færð stig fyrir fötin þín inn í snjallsímaforritið. Svo geturu sótt þér nýtt föt og borgar það með stigunum þínum,“ segir Hjalti.

„Þú borgar 4950 á mánuði og ekkert meira. Þá ertu með aðgang að þessum stóra fataskáp,“ segir Hjalti sem tekur ekki við peningum fyrir staka flík.

Hjalti segir marga hluti hafa áhrif á það hversu mörg stig einstaklingar fái fyrir föt, en því fleiri föt sem þau komi með, því fleiri stig fái þau.

Elvíra sem kemur frá Danmörku segir hugmyndina koma frá Danmörku og að verslanir sem þessar séu gríðarlega vinsælar í Danmörku, Þýskalandi og New York.