Lars Larsen, stofnandi húsgagnakeðjunnar Jysk, er látinn. Hann lést á heimili sínu í Danmörku í morgun, 71 árs að aldri, í faðmi fjölskyldu sinnar, að því er segir í yfirlýsingu frá Jysk.

Larsen lét af störfum sem stjórnarformaður Jysk fyrir aðeins rétt rúmum tveimur mánuðum, eða eftir að hann greindist með lifrarkrabbamein. Þrítugur að aldri stofnaði hann Jysk, með það að markmiði að bjóða upp á lægsta mögulega vöruverð.

Fyrirtækið óx á ógnarhraða og nú fjörutíu árum síðar eru Jysk verslanirnar 2700 talsins í 52 löndum – þar á meðal á Íslandi en hér eru Jysk verslanirnar reknar undir nafni Rúmfatalagersins.

Larsen var einn ríkasti maður Danmerkur og metinn á mörg hundruð milljarða íslenskra króna. Hann lætur eftir sig eiginkonu, tvö börn og tvö barnabörn.