Gera má ráð fyrir að fálka­stofn landsins verði á niður­leið næstu árin. Þetta segir Ólafur Karl Niel­sen, fugla­fræðingur Náttúru­fræði­stofnunar Ís­lands, í sam­tali við Frétta­blaðið. Eins og greint hefur verið frá á síðustu vikum er veiði­stofn rjúpunnar einn sá minnsti síðan mælingar hófust fyrir aldar­fjórðungi en stofn fálkans reiðir sig að miklu leyti á stofn rjúpunnar.

„Þessir tveir stofnar, rjúpa og fálki, eru ná­tengdir og báðir sýna hlið­stæðar sveiflur en hliðraðar þannig að fálkinn er tveimur til fjórum árum á eftir rjúpunni,“ segir Ólafur Karl. Rjúpan er ein helsta fæða fálkans. „Þannig er því mest um fálka ein­hverjum árum á eftir há­marki rjúpunnar og síðan minnst ein­hverjum árum á eftir lág­marki rjúpunnar.“

Hér á landi er talið að séu um þrjú til fjögur hundruð fálka­pör og er fuglinn sagður vera í „nokkurri hættu“ á Vá­lista Náttúru­fræði­stofnunar. Ólafur segir þó að stofn­breytingar fálka séu mun dempaðri en stofn­breytingar rjúpunnar en „miðað við fyrri reynslu ætti fálka­stofninn að vera á niður­leið næstu árin.“

Hann segir þó enn ekki á­stæðu til að hafa miklar á­hyggjur af stofni fálkans. „Þessar stofn­sveiflur eru náttúru­leg fyrir­bæri og vekja ekki á­hyggjur sem slíkar. Meðan þetta er innan „eðli­legrar“ marka þá er ekki á­stæða til að hafa á­hyggjur eða grípa inn í at­burða­rásina.“

Veiðiþol mun minna en í fyrra

Náttúru­fræði­stofnun gaf út mat sitt á veiði­þoli rjúpna­stofnsins í ár í upp­hafi mánaðar. Segir þar að á­ætlaður fjöldi rjúpna á landinu í haust sé einn sá lægsti miðað við síðustu ára­tugi. Þó setur stofnunin fyrir­vara á þessar á­ætlanir, því út­reikningar hennar byggja á gögnum fyrir Norð­austur­land þar sem við­koma rjúpunnar var af­leit vegna ó­veðra um miðjan júlí. Því gæti stofn­stærð rjúpunnar mögu­lega verið van­metin.

Óveður á Norðausturlandi fóru illa með rjúpnastofninn í ár.
Mynd/Kristján

Þrátt fyrir það var enginn á­greiningur um á­stand rjúpna­stofnsins á sam­ráðs­fundi Náttúru­fræði­stofnunar, um­hverfis- og auð­linda­ráðu­neytisins, Um­hverfis­stofnunar, Skot­veiði­fé­lags Ís­lands og Fugla­verndar, sem var haldinn 10. septem­ber síðast­liðinn. Um­hverfis- og auð­linda­ráðu­neytið gaf það svo út í síðustu viku að veiði­tíma­bil rjúpunnar yrði frá 1. til 30. nóvember í ár, það sama á síðasta ári. Veiði­þol stofnsins í ár er þó ekki metið nema um 25 þúsund fuglar, sem er um 35 prósent af metnu veiði­þoli í fyrra.