Samkvæmt Theresu May, forsætisráðherra Bretlands, er breska þingið líklegra til að stöðva Brexit, úrgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en að samþykkja að Bretland gangi úr sambandinu án þess að hafa gert samninga við ESB.

May gerir lokatilraun til að sannfæra þingmenn um að styðja Brexit-samning hennar með ræðu í dag, en á morgun verður kosið um samninginn og allt bendir til þess að hann verði felldur. 

Verkamannaflokkurinn, sem ætlar að kjósa gegn samningnum, segist ætla að fresta vantraustsyfirlýsingu gagnvart May og reyna að kalla til kosninga, verði samningurinn felldur. 

Í ræðunni sem verður flutt í dag ætlar May að segja að það séu ákveðnir aðilar á þinginu sem eri hvað sem þeir geti til þess til að fresta eða koma í veg fyrir Brexit-samninginn. Hún biður þingmenn um að hugsa um afleiðingar gjörða sinna og varar við því að traust á stjórnmálum verði fyrir „skelfilegum skaða" ef niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar, sem var að ganga úr sambandinu, er ekki virt.