Tveir eru látnir og fjórir alvarlega sárir eftir eldsvoða á skíðasvæði í Courchevel í Frakklandi í morgun. Tíu til viðbótar urðu fyrir skaða. BBC greinir frá.

Eldurinn kom upp skömmu fyrir dagrenningu, í byggingu sem hýsir starfsfólk. Þrjár byggingar urðu eldinum að bráð að einhverju leyti.

Sjötíu slökkviliðsmenn börðust við eldinn en eldsupptök eru ókunn. Í frétt BBC kemur fram að slökkviliðsmenn hafi notað stóra stiga til að freista þess að bjarga fólki út úr brennandi húsinu, sem er á þremur hæðum.

Myndband sem deilt hefur verið á samfélagsmiðlum sýnir manneskju stökkva undan eldtungum út um glugga á brennandi húsinu.