Talíbanar skutu í loftið og notuðu táragas til að stöðva kröfugöngu kvenna í höfuðborg Afganistan, Kabúl, í dag. Þar kröfðust konurnar jafnréttis en um er að ræða aðra kröfugöngu kvenna á jafnmörgum dögum í Kabúl.

Á vef AP segir að gangan hafi verið friðsamleg til að byrja með. Mótmælendur lögðu krans fyrir utan varnarmálaráðuneyti Afganistan til að minnast hermanna sem féllu í baráttu við Talíbana. Að því loknu gengu þær til forsetahallarinnar.

„Við erum hér til að öðlast mannréttindi í Afganistan,“ sagði hin 20 ára Maryam Naiby og bætti við að hún elskaði landið sitt og að hún væri ekki á förum frá því.

Þegar mótmælendur voru komin að forsetahöllinni fóru tólf hermenn Talíbana inn í hópinn, skutu í loftið og notuðu svo táragas til að stöðva þau.

Talíbanar hafa frá því að þeir tóku við völdum lofað því að konum verði tryggður betri réttur en þegar þeir voru síðast við völd en konur í Afganistan efast margar um sannleiksgildi þessara fullyrðinga.

Konurnar á mótmælunum sögðu að þær færu á mótmælin þrátt fyrir áhyggjur fjölskyldna sinna og sögðust einhverjar þeirra hafa laumast út.

„Ég er rödd kvennanna sem ekki geta talað. Þeir halda að þetta sé land karlmannsins, en þetta er það ekki, þetta er líka land kvenmannsins,“ sagði Farhat Popalzai sem er 24 ára og var viðstödd mótmælin.

Hér að neðan má sjá myndskeið af því þegar mótmælin voru að nálgast forsetahöllina.

Greint var frá því fyrr í dag að flugvöllurinn í Kabúl hefði verið opnaður á ný og að innanlandsflug hefði hafist á ný í Afganistan í dag.