Indverskur maður sem var handtekinn fyrir að villa sér um heimildir í von um að fá bólusetningu í Madhepura í Indlandi viðurkenndi í samtali við lögregluyfirvöld að hann hefði þegar fengið ellefu bólusetningar við Covid-19.

Indverskir fjölmiðlar fjalla um hinn 84 ára gamla Bahmdeo Mandal og játningu hans í dag.

Mandal sýndi lögreglumönnum skjal þar sem hann greindi frá því hvar hann hefði þegið bólusetningar með því að notast við fölsuð skilríki.

Bólusetningarnar hafi haft jákvæð áhrif og dregið úr langvarandi bakverkjum.