Bandaríkjamenn geta áfram sótt TikTok í síma sína eftir að alríkidómari kom í veg fyrir að umdeilt bann Bandaríkjastjórnar tæki gildi.

Féllst dómarinn í gær á þá beiðni TikTok að tímabundið lögbann yrði sett á þær fyrirætlanir að forritið yrði fjarlægð úr Google Play og App Store í Bandaríkjunum.

Var lögbannið lagt á einungis nokkrum klukkustundum áður en tilskipun stjórnvalda átti að taka gildi.

Segja miðilinn ógn við þjóðaröryggi

Ákvörðun dómarans er sögð vera sigur fyrir TikTok sem sagði aðgerð stjórnvalda brjóta gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna og brjóta í bága við reglur um sanngjarna málsmeðferð. Þó er einungis um tímabundið lögbann að ræða og ekki búið að koma í veg fyrir að bannið taki síðar gildi.

Lögmenn Bandaríkjastjórnar byggðu mál sitt á því að kínverskt eignarhald TikTok fæli í sér „beina ógn“ við þjóðaröryggi.

Hafna ásökununum

Kínverska sprotafyrirtækið ByteDance, móðurfélag TikTok, hefur höfuðstöðvar í Beijing og hefur ríkisstjórn Trump fullyrt að hætta sé á því að upplýsingar um bandaríska notendur samfélagsmiðilsins geti lent í höndum kínverska yfirvalda.

Forsvarsmenn TikTok hafna þessum ásökunum og segja að gögn tengd bandarískum notendum séu vistuð í Bandaríkjunum og í Singapúr.

Bandaríska tæknifyrirtækið Oracle tilkynnti fyrr í mánuðinum að það hefði keypt hlut í dótturfélagi ByteDance sem haldi meðal annars utan um rekstur TikTok í Bandaríkjunum.