Ég verð að standa hérna sem málsvari lögmanna í landinu við þessar aðstæður og vera dálítið grimmur við lögguna,“ sagði Arnar Þór Stefánsson hæstaréttarlögmaður í málflutningi í máli lögmannsins Steinbergs Finnbogasonar, í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku. Steinbergur fer í málinu fram á 10 milljónir í bætur frá ríkinu fyrir frelsissviptingu og aðrar íþyngjandi aðgerðir lögreglu vegna máls sem skjólstæðingur hans var sakborningur í.

Steinbergur var handtekinn á skrifstofum héraðssaksóknara í febrúar 2016, vegna gruns um að vera viðriðinn peningaþvættismál skjólstæðings síns, vistaður í Hverfissteini eina nótt og sætti einangrun í tvo sólarhringa í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Framkvæmdar voru húsleitir bæði á lögmannsstofu hans og heimili.

Með úrskurði héraðsdóms rúmum þremur mánuðum síðar var embætti héraðssaksóknara gert að eyða afritum af öllum gögnum sem haldlögð voru í húsleit á lögmannsstofunni, með þeim rökum að með afritun gagnanna hefði trúnaðarskyldu milli lögmanns og skjólstæðinga hans verið með öllu varpað fyrir róða. Meðal gagna sem haldlögð voru í húsleitinni var mappa merkt nafni skjólstæðings Steinbergs í málinu auk þess sem tekin voru afrit af rúmlega tvö þúsund möppum í tölvum hans, merktum ýmsum málum og nöfnum skjólstæðinga.

Steinbergur hafði réttarstöðu sakbornings í málinu í 19 mánuði áður en mál hans var fellt niður hjá héraðssaksóknara án þess að ákæra væri gefin út gegn honum.

Gagnrýndi framgöngu lögmannsins

Síðari hluti aðalmeðferðar málsins fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku en fyrr í mánuðinum voru teknar skýrslur af nokkrum vitnum fyrir dómi, þar á meðal af Birni Þorvaldssyni, saksóknara hjá embætti héraðssaksóknara. Við upphaf þinghaldsins í síðustu viku lagði ríkislögmaður fram bókun þar sem gerðar eru alvarlegar athugasemdir við óbilgjarna framgöngu lögmanns Steinbergs gagnvart Birni er hann gaf skýrslu fyrir dómi. Í bókuninni og í málflutningi ríkislögmanns var gagnrýnt að lögmaðurinn hefði gefið í skyn að opinberir starfsmenn sem leiddir voru sem vitni í málinu, hefðu gerst sekir um brot í starfi.

Arnar Þór brást ókvæða við bókuninni og sagði lögreglu og saksóknara verða að þola að saumað væri að þeim, enda gæfi mál Steinbergs mögulega tilefni til áminningar á saksóknarann, og jafnvel rannsakendum vegna þess að í beiðnum um húsleitir og gæsluvarðhald hafi verið að finna staðhæfingar sem voru ekki í samræmi við fyrirliggjandi gögn úr skýrslutökum á þeim tíma. Þá væri ekki útilokað að fella mætti háttsemi saksóknarans undir ákvæði hegningarlaga um rangar sakargiftir. Þess vegna hefði hann varað Björn við því í upphafi skýrslutökunnar að hann kynni að fella á sig refsiábyrgð með skýrslugjöf sinni.

það er kominn tími núna árið 2020 til að segja stopp. Forherðingin er orðin of mikil

„Ég held að Björn Þorvaldsson, sem er búinn að fá ansi marga bankamenn dæmda í fangelsi, eftir að hafa saumað að þeim, mætti nú alveg prófa að vera einu sinni spurður spjörunum úr og hafi nú bara gott af því,“ sagði Arnar Þór. Hann vísaði til skýrslugjafar lögreglumanna sem komu að handtöku Steinbergs, sögðust aðspurðir fyrir dómi óhræddir við að handtaka lögmenn og fara í húsleitir á lögmannsstofur, enda hefðu þeir farið í fjölda slíkra.

„Kannski er þetta vandinn,“ sagði Arnar og bætti við: „Kannski er embætti héraðssaksóknara sem áður hét Sérstakur saksóknari, komið það langt frá sakamálalögunum og veruleikanum, að það er kominn tími núna árið 2020 til að segja stopp. Forherðingin er orðin of mikil.“

Kornið sem fyllti mælinn

Arnar Þór sagði mál Steinbergs kornið sem fyllti mælinn. „Hér gengu menn of langt og framganga yfirvalda í þessu máli var ámælisverð.“

Arnar Þór sagði þeim dómara sem úrskurðaði Steinberg í gæsluvarðhald og heimilaði húsleit á lögmannsstofu hans, vorkunn. Vegna skamms tíma sem dómarar hafi til að úrskurða um rannsóknaraðgerðir þurfi þeir að geta treyst því að staðhæfingar í beiðnum, sem renna eigi stoðum undir grun gagnvart sökuðum manni, séu réttar.

Nokkur umræða varð í þinghaldinu um málsmeðferð umræddra beiðna og sagði dómarinn í málinu, Pétur Dam Leifsson, málsmeðferð slíkra beiðna í raun ærið rannsóknarefni og tilvalið umræðuefni á Lagadegi, árlegum málþingsdegi lögfræðinga.

Ríkislögmaður viðurkennir að Steinbergur eigi bótarétt vegna frelsissviptingar að ósekju en hafnar bótakröfunni sem of hárri.

Dómur verður kveðinn upp í máli Steinbergs síðar í sumar.