Tekin hefur verið ákvörðun um að stöðva tímabundið bólusetningar með bóluefni AstraZeneca hérlendis. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar, sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í hádeginu.

Ákvörðunin er tekin vegna fregna af hugsanlegum alvarlegum aukaverkunum af efninu tengdum blóðtöppum í Evrópu.

Þórólfur segist þó gera ráð fyrir að notkun efnisins verði aðeins stöðvuð í nokkra daga á meðan rannsókn á efninu fer fram hjá Lyfjastofnun Evrópu.

Greint var frá því í morgun að Danir hefðu ákveðið að hætta að nota bóluefni Astra-Zeneca tímabundið vegna fjölda alvarlega tilkynninga um aukaverkanir tengdar blóðtappa. Eitt tilvik í Danmörku varðar dauðsfall.

Fleiri lönd hafa einnig hætt að nota AstraZeneca bóluefnið, þar á meðal Eistland, Lettland, Lúxemborg og Litháen, meðan málið er til rannsóknar hjá Lyfjastofnun Evrópu.

Alls hafa 8.882 einstaklingar hérlendis fengið fyrri skammtinn af bólusefni AstraZeneca en seinni skammturinn er gefinn að þremur mánuðum liðnum. Lyfjastofnun hefur borist 125 tilkynningar vegna aukaverkana af bóluefninu þar af þrjár alvarlegar. Ekki er þó um andlát að ræða í þeim tilfellum.

Ljóst að fréttirnar skapi óöryggi

Bóluefni AstraZeneca hefur verið verulega umdeilt síðastliðnar vikur eftir að nokkur lönd ákváðu að nota bóluefnið ekki á eldri aldurshópa þar sem virknin meðal einstaklinga yfir 65 ára aldri var ekki nægilega vel rannsökuð. Þá virðist bóluefnið hafa litla sem enga virkni á ný afbrigði veirunnar.

Aðspurður um hvort hann telji að fréttir dagsins gætu veikt traust almennings enn fremur á bóluefninu sagði Þórólfur svo vera en það sé mikilvægt að skera úr um hvort orsakasamband sé á milli bólusetningar og aukaverkanna.

„Ég held að allar svona fréttir muni skapa óöryggi hjá fólki gagnvart bóluefnunum en ég minni á það að að þegar svona margir eru bólusettir á sama tíma, þá sjáum við alltaf eitthvað í kjölfarið af bólusetningunni sem við þurfum að sjálfsögðu að vega og meta hvort það tengist bólusetningunni.“

Nú sé mikilvægt að fá frekari upplýsingar um málið og ef um er að ræða orsakasamband þurfi að endurskoða notkunina. „Nú ef ekki þá held ég að við munum mæla með því að bóluefnið verði áfram notað,“ sagði Þórólfur.