Þingmaður Samfylkingarinnar segir að ekki megi ofnota 36. grein starfsmannalaga og ákvæði í stjórnarskrá sem heimili flutninga embættismanna milli starfa.

Þrír af fjórum ráðuneytisstjórum, skipuðum á þessu ári, hafa fengið skipun án auglýsingar og án þess að hæfisnefnd gefi álit. Fyrrnefnd 36. grein gerir það kleift.

Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður lagði fram frumvarp síðasta vetur eftir að fyrrum ríkisendurskoðandi var fluttur yfir til Lilju Alfreðsdóttur ráðherra.

„Það er verið að misbeita þesari lagagrein,“ segir Jóhann Páll sem telur varhugavert að undanþáguákvæði verði að viðtekinni venju. Slík stjórnsýsla feli í sér eðlisbreytingu sem auki hættu á geðþóttaákvörðunum, jafnvel klíkuskap.

Trausti Fannar Valsson, deildarforseti lagadeildar HÍ, segir almennu regluna þá að laus störf og embætti eigi að auglýsa. Því skipulagi hafi verið komið á formlega með starfsmannalögum árið 1954.„Rökstuðningurinn er með vísan til jafnræðis borgaranna, að þeir eigi jafnan möguleika á að sækja um störf. Einnig er vísað til hagsmuna ríkisins að velja úr stærri og jafnvel hæfari starfsmannahópi,“ segir Trausti Fannar.

Á auglýsingaskyldunni séu þó undantekningar samanber flutning embættismanna milli embætta.

„Það er sjálfsagt og eðlilegt að ræða hve viðamiklar undantekningar eigi að vera. Endanleg ákvörðun um útfærslur frá auglýsingaksyldu á fyrst og fremst heima hjá Alþingi sem löggjafa,“ segir Trausti Fannar.