Íshellan við Grímsvötn heldur áfram að síga. Vatn leitar út og er byrjað að sjást, það hefur aukist smátt og smátt en um er að ræða mjög hæga atburðarás að sögn Einars Bessa Gestssonar, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni.

Ekki er talin mikil hætta fyrir mannvirki eða samgöngur vegna hlaupsins.

Fylgjast með gasmengun

„Það er helst að gasmengun geti fylgt svona jökulhlaupum en þá helst nærri jökuljaðrinum,“ segir Einar Bessi í samtali við Fréttablaðið.

„Vatnið fer í Gígjukvísl og undir brúna, það er helst að gasmengunin gæti orðið nærri jökuljaðrinum. Við erum með gasmæla þarna og sjáum enga breytingu enn, en við höldum áfram að vakta svæðið,“ bætir hann við.

Nái hámarki á sunnudag

Einar Bessi segir að hópur jöklafræðinga hjá Háskóla Íslands hafi gert spálíkan sem geri ráð fyrir hámarksrennsli í Gígjukvísl næsta sunnudag.

„Það sem skýrir hlaupið er að í Grímsvötnum safnast saman vatn vegna jarðhita sem bræðir jökulinn neðan frá. Á sumrin safnast einnig leysingavatn,“ segir Einar Bessi.

„Þessi vatnssöfnun hefur átt sér stað frá síðasta hlaupi árið 2018 og nú er þrýstingurinn orðinn nógu mikill til að vatnið finnur sér leið út úr Grímsvötnum og kemur fram við Gígjukvísl.“