Ýmsir kerfislegir þættir, líkt og undirmönnun og aðrar starfsaðstæður, verða til þess að alvarleg atvik eiga sér stað í heilbrigðiskerfinu.

Þetta segir Guðbjörg Pálsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. „Þegar starfsumhverfið er svona erfitt er varla hægt að tryggja öryggi og góða þjónustu.“

Á mánudag var greint frá því að hjúkrunarfræðingur hefði neitað sök í máli þar sem hún er ákærð fyrir að hafa svipt sjúkling lífi með því að þröngva ofan í konu tveimur flöskum af næringardrykk á meðan aðrir héldu henni niðri að skipan hjúkrunarfræðingsins.

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður hjúkrunarfræðingsins, segist hafa lagt fram bókun þar sem krafist er öflunar og afhendingar gagna í málinu. Þar á meðal sé matsgerð rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði. Að sögn Vilhjálms er vísað til matsgerðarinnar í gögnum málsins en hún ekki lögð fram.

Þá segir Vilhjálmur hafa komið til tals að læknir og hjúkrunarfræðingur yrðu meðdómsmenn.

Guðbjörg bendir á að Ísland sé að verða síðasta Norðurlandaþjóðin til að breyta refsiábyrgð í heilbrigðiskerfinu. Þó að málið sé í vinnslu segir hún kominn tíma á að frumvarpið líti dagsins ljós.

Maður mætir á sína vakt og gerir sitt besta, en ef það gerist eitthvað á vaktinni, vegna einhvers eins og undirmönnunar, getur maður verið sóttur til saka

„Það verður að tryggja að ekki sé farið gegn einstaklingum heldur kerfinu þegar alvarleg atvik eiga sér stað,“ segir Guðbjörg sem segist ekki geta tjáð sig um mál hjúkrunarfræðingsins sem um ræðir.

Guðbjörg segir að heilbrigðisstarfsfólk sé orðið vart um sig vegna slæmrar mönnunar og starfsumhverfisins.

„Þau vita manna best hvað þetta þýðir fyrir þau. Þau vita hvað er í húfi,“ segir hún. Heilbrigðisstarfsfólk spyrji sig hvað geti gerst á næstu vakt og lifi í ótta vegna ástandsins.

„Maður mætir á sína vakt og gerir sitt besta, en ef það gerist eitthvað á vaktinni, vegna einhvers eins og undirmönnunar, getur maður verið sóttur til saka. Þetta er daglegur raunveruleiki heilbrigðisstarfsfólks,“ segir Guðbjörg.