Félag sjúkraþjálfara lýsir yfir þungum áhyggjum af stöðu sjúkraþjálfunar á Landspítala vegna mönnunarvanda, álags, starfsaðstöðu og framtíðarsýnar spítalans. Í yfirlýsingu frá stjórn félagsins kemur fram að stöðugildum sjúkraþjálfara á Landspítalanum hefur fækkað og samhliða því hefur endurhæfingarþjónusta dregist saman. Stöðugildum sjúkraþjálfara hefur því fækkað um 13,6 prósent síðustu fimm ár, eða frá 2017.

Þá kemur einnig fram í yfirlýsingunni að aðeins hafi verið hægt að halda uppi fullri þjónustu í 23 prósent tilfella og aldrei á Hringbraut. Það hefur áhrif á fráflæðisvanda spítalans en þegar fjöldi legudaga eykst aukast líkur á endurinnlögnum.

„Þetta hefur haft veruleg áhrif á möguleika sjúkraþjálfara til að svara þörf og eftirspurn og veita fullnægjandi þjónustu,“ segir í yfirlýsingunni og er bent á að undanfarna mánuði hafi sjúkraþjálfarar á Landspítalanum ekki getað sinnt öllum þeim sjúklingum sem metið hefur verið að þurfi á sjúkraþjálfun að halda.

Þá er bent á mikla aukningu á veikindafjarvistum sjúkraþjálfara en aukningin er um 31 prósent ef borin eru saman árin 2017 og 2022.

„Mönnun sjúkraþjálfara á Landspítala hefur bein áhrif á möguleika spítalans til að sinna hlutverki sínu sem háskólasjúkrahús sem sinnir klínískri kennslu fyrir nema í sjúkraþjálfun. Því er nú komin upp sú staða að raunveruleg hætta er á að ekki verði mögulegt að taka inn alla þá sem óska eftir að komast í meistaranám til starfsréttinda sjúkraþjálfara. Það er alvarlegt þegar raunin er að það þyrfti að fjölga þeim sem fara í námið. Slík staða hefði bein neikvæð áhrif á nýliðun stéttarinnar. Þá myndu færri ráða sig á Landspítala eftir útskrift,“ segir í yfirlýsingunni þar sem kallað er eftir því að bæði sé aðstaðan á spítalanum tryggð og að spítalinn sé gerður að eftirsóknarverðum vinnustað.