Helgi Seljan, fréttamaður á Ríkisútvarpinu sem siðanefnd RÚV sagði hafa brotið siðareglur í umfjöllun sinni um Samherja, telur að Sigrún Stefánsdóttir sem á sæti í nefndinni sé vanhæf í málinu. Þetta kemur fram í bréfi sem lögmaður Helga sendi Gunnari Þór Péturssyni, formanni siðanefndar RÚV. Helgi fer fram á endurupptöku málsins eða niðurfellingu úrskurðarins vegna þessa.

Ástæða hins meinta vanhæfis er að Sigrún hefur starfrækt Vísindaskóla unga fólksins við Háskólann á Akureyri sem fengið hefur styrki frá Samherja. Sigrún er einnig stjórnarmaður í fjölmiðlafyrirtækinu N4 sem er í óbeinni eigu fyrirtækisins gegnum Fjárfestingafélagið Vör og Síldarvinnsluna.