Ríkislögreglustjóri skoðar það nú að kaupa sérstaka bifreið sem auðveldar flutning fólks sem notar hjólastól. Eins er til skoðunar verklag stoðdeildar við flutning fatlaðs fólks og unnið að skýrslu um brottvísun fjölda einstaklinga til Grikklands í lok nóvember á síðast ári.

Þetta, og fleira, kemur fram í bréfi embættis ríkislögreglustjóra til umboðsmanns Alþingis í kjölfar fyrirspurnar embættisins um brottvísunina.

Brottvísunin vakti mikla athygli en hún var framkvæmd í skjóli nætur og fatlaður einstaklingur borinn inn í lögreglubifreið.

Ekki bara fyrir stoðdeild og ekki bara til flutnigs fatlaðs fólks

Í bréfi ríkislögreglustjóra kemur fram að embættið hugsi sér að bifreiðin sé fjölnota og að hún yrði ekki eingöngu notuð í þessum tilgangi. En með því að kaupa bifreiðina væri þó hægt að flytja fólk sem notar til dæmis hjólastól með betri hætti og þannig hægt að tryggja að einstaklingurinn geti farið sjálfur inn í bifreiðina.

Í bréfi ríkislögreglustjóra kemur einnig fram að embættið vinni að skýrslu um brottvísunina en að vegna anna hjá embættinu sé þeirri vinnu ekki enn lokið. Skýrslan verður send dómsmálaráðuneytinu þegar hún er tilbúin.

Á vef umboðsmanns Alþingis segir að í ljósi svara ríkislögreglustjóra vegna tiltekinna atriða tengdum brottvísun umsækjanda um alþjóðlega vernd hafi umboðsmaður lokið athugun sinni á málinu en óskar eftir því að vera upplýstur um framvindu málsins. Þá ítrekar hann einnig nauðsyn þess að fram fari einstaklingsbundið mat á þörfum þeirra sem í hluta eiga í svona málum og að tekið sé sérstakt tillit til fólks í viðkvæmri stöðu, svo sem vegna fötlunar.