Annað snjó­flóðið sem féll á Flat­eyri í nótt lenti ör­fáum metrum frá heimili Steinunnar Guð­nýjar Einars­dóttur sem lýsir því að það að hafi verið eins og í verstu ham­fara­bíó­mynd að horfa yfir svæðið. „Ég er fædd og upp­alin hérna og þetta minnti ó­neitan­lega mikið á hvernig þetta var árið 95,“ segir Steinunn í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hús Steinunnar og fjöl­skyldu hennar er stað­sett við endann á sjó­flóða­varnar­görðunum á Flat­eyri og var Steinunn stödd á efri hæð hússins þegar hún heyrir skyndi­lega högg og bresti. „Það fyrsta sem mér datt í hug var að maðurinn minn hefði keyrt á bíl­skúrs­hurðina og væri kominn að sækja eitt­hvað.“ Eigin­maður Steinunnar er björgunar­sveitar­maður og hafði farið í út­kall þegar fyrra snjó­flóðið skall á.

Bíllinn á hvolfi nokkrum metrum frá glugganum

Steinunn var upp­tekin við að skiptast á upp­lýsingum við lög­reglu og fjöl­skyldu­með­limi þegar seinna snjó­flóðið féll. „Þegar ég lít út um gluggann sé ég bílinn okkar á hvolfi nokkrum metrum frá mér.“ Snjó­flóðið hafði hrifsað þrjá bíla með sér og gjör­breytt lands­laginu sem blasti við henni. „Ég hljóp strax niður og tek son minn og færi hann frá út­vegg yfir í annað her­bergi.“ Ó­viss um næstu skref leit Steinunn aftur út um gluggann og áttar sig á því að húsið á móti hafði lent undir snjó­flóðinu.

„Ég tek eftir að ná­granna­kona mín er búin að opna gluggann og er að koma börnunum sínum út.“ Rúðurnar voru brotnar í húsinu og hluti þess var á kafi. „Þau komu öll yfir til mín, hún og yngri börnin hennar en eldri dóttir hennar sat enn­þá föst inni í húsinu.“

Höfnin á Flateyri lenti illa í snjóflóðinu.

Horfði á manninn sinn grafa stúlkuna upp

Eigin­maður Steinunnar kom á björgunar­sleða nokkrum sekúndum síðar. „Svo komu þeir hver á fætur öðrum og voru ó­trú­lega snöggir að byrja að moka.“ Steinunn þakkar skjótum við­brögðum björgunar­fólks fyrir að stúlkan hafi bjargast og segir litlu hafa munað að verr hafi farið. Stúlkan var föst undir flóðinu í um hálf­tíma og var flutt um borð í varð­skipið Þór, þar sem hlúð var að henni og hún flutt á sjúkra­húsið á Ísa­firði.

Steinunn segir það hafa tekið á að horfa á eigin­mann sinn grafa stúlkuna úr húsinu en minningar frá snjó­flóðinu árið 1995 vöknuðu fljótt. „Á svona litlum stöðum eru þetta allt vinir og ættingjar og flestir voru að endur­upp­lifa á­standið sem var hérna ´95.“ Líkt og þá fóru allir sem gátu að að­stoða við björgunar­að­gerðir.

„Þetta hefði geta farið mjög illa ef björgunar­sveitin hefði ekki verið svona snögg. Það getur kostað manns­líf að flóð komist yfir varnar­garðana.“ Ekki sé víst hvort mikið hafi sloppið yfir varnirnar. „En það var nóg.“

Höfnin þurrkuð út

Fjöl­skyldunni var gert að yfir­gefa húsið laust eftir mið­nætti og færðu þau sig yfir til for­eldra Steinunnar sem eru stað­sett neðar í Eyrinni. Bruna­varnar­kerfið í bát fjöl­skyldunnar hafði farið í gang við fyrra flóðið og höfðu þau strax gert ráð fyrir að snjó­flóðið hafi náð niður á bryggju.

„Ég frétti að allt væri farið úr höfninni og að höfnin og bátarnir þar hafi bara verið þurrkuð út.“ Hún fór því með föður sínum niður á bryggjuna í nótt til að kanna á­standið. „Það var bara eins og í verstu ham­fara­bíó­mynd að horfa yfir höfnina. Það var allt farið.“

Bátar í höfninni á Flateyri urðu fyrir miklu tjóni.

Til­finningar­tjón og fals­öryggi

Það versta við snjó­flóðið hafi þó ekki verið eigna­tjónið heldur á­fallið eða til­finninga­tjónið eins og Steinunn kýs að kalla það. „Það er vond til­finning að upp­lifa að maður sé ekki hundrað prósent öruggur.“ Fals­öryggi hafi ein­kennt gær­daginn þrátt fyrir við­varanir. „Ég var alveg virki­lega kát yfir öllum þessum snjó hérna í gær og hafði engar á­hyggjur á að eitt­hvað gæti gerst.“

Þegar fjöl­skyldu­bíllinn lenti nokkrum metrum frá staðnum sem Steinunn var á í húsinu hafi öryggis­til­finningin snúist upp í and­stæðu sína. „Þá var maður nú al­deilis minntur á að maður væri ekki öruggur.“

Munu vinna úr þessu líkt og árið 1995

Rússí­bani næturinnar hafði mikil á­hrif á alla fjöl­skyldu­með­limi og segir Steinunn fjögurra ára son sinn hafa verið hvekktan yfir því að vera hent út í storminn í nótt. „Núna tökum við bara einn dag í einu en blessunar­lega eru allir heilir og svo verðum við bara að taka því sem tekur við næst.“

Sam­hugur ríki innan bæjarins og þrátt fyrir á­fall séu allir þakk­látir fyrir að ekki fór verr. „Við unnum úr þessu 95 og við munum gera það aftur, en ef það er eitt­hvað sem þarf að laga þá vill maður auð­vitað að það verði lagað.“