Erilsöm nótt er að baki hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Töluvert var af umferðaróhöppum í gær, en líklega hefur slagviðri og skafrenningur spilað þar inn í.

Klukkan hálf sjö í gærkvöld óskuðu íbúar í fjölbýlishúsi í Kópavogi eftir aðstoð við að fjarlægja mann sem stóð og öskraði í anddyri hússins. Maðurinn var á bak og burt er lögregluþjónar komu á vettvang.

Tveir ölvaðir menn voru handteknir í sitthvoru lagi í miðbæ Reykjavíkur í gær eftir að hafa ráðist að dyravörðum skemmtistaða, auk þess að annar þeirra reyndi að slá og sparka í lögreglumenn. Voru þeir báðir vistaðir í fangaklefa. Eins var óskað eftir aðstoð lögreglu að veitingastað í Hlíðarhverfi vegna manns sem lét þar öllum illum látum. Var hann farinn af vettvangi þegar lögregluþjónar mættu á staðinn.

Tilkynning um líkamsárás í Kópavogi barst lögreglu stuttu eftir klukkan ellefu í gærkvöld. Árásarþoli leitaði á slysadeild en hvorki er vitað um meiðsli á honum né hver hafi ráðist að honum.

Þá barst lögreglu tilkynningu stuttu fyrir miðnætti um mann sem hafði verið að skemma bíla í Hlíðarhverfi í Reykjavík. Einstaklingur var handtekinn, grunaður um skemmdarverkin.

Þá var tilkynnt um átta umferðaróhöpp í gærkvöldi og sjö voru handteknir grunaðir um ölvunarakstur.