Íslensk stjórnvöld munu veita 20 milljónum króna til neyðaraðstoðar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna vegna eldsvoðans í búðum hælisleitenda á grísku eynni Lesbos.

Þá verður 20 milljónum króna varið til mannúðarstarfs í Líbanon vegna sprenginganna í Beirút í ágústbyrjun og bætist það við 20 milljóna króna framlag til matvælaaðstoðar þar í landi.

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins. Hátt í 12 þúsund manns, þar af fjögur þúsund börn, dvöldu í Moria-búðunum á Lesbos sem brunnu til kaldra kola í síðustu viku.

„Ástandið á Lesbos er grafalvarlegt þar sem þúsundir sem fyrir bjuggu við harðan kost hafa nú misst allt sitt. Það er mat mannúðarstofnana á vettvangi að bregðast verði við þeirri neyð sem þarna ríkir og því höfum við ákveðið að veita þessum fjármunum til að aðstoða bágstadda án tafar,“ er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, á vef Stjórnarráðsins.

Borgin enn í rúst og íbúar í áfalli

Minnst 200 létust og fimm þúsund særðust í sprengingunum á hafnarsvæðinu í Beirút þegar eld bar að 2.750 tonnum af ammoníum­nítrati þann 4. ágúst. Sprengingin olli gríðarlegri eyðileggingu í borginni og jafnaði margar byggingar nærri höfninni við jörðu. Að sögn stjórnvalda misstu allt að 300 þúsund íbúar heimili sín.

Munu íslensk stjórnvöld nú veita 20 milljónum króna til Lebanon Humanitarian Fund, svæðasjóðs samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA) í Líbanon vegna áframhaldandi neyðarástands.