Yfir­völd í Min­nesota í Banda­ríkjunum greindu frá því í gær að þau hefðu höfðað mál gegn lög­reglunni í Minnea­polis. Lög­reglan í Minnea­polis hefur verið harð­lega gagn­rýnd síðustu daga eftir að mynd­band af lög­reglu­þjóni krjúpa á hálsi Geor­ge Floyd, sem var ó­vopnaður, fór í dreifingu.

Ríkis­stjóri Minnea­polis, Tim Walz, til­kynnti á blaða­manna­fundi í gær að mann­réttinda­ráð ríkisins myndi rann­saka starf­semi lög­reglunnar síðast­liðinn ára­tug til að komast að því hvort kerfis­bundið mis­rétti væri stundað innan meðal lög­reglu­manna ríkisins.

Mótmæli og óeirðir

Lör­eglu­þjónninn Derek Chau­vin hefur verið hand­tekinn og á­kærður fyrir að hafa myrt Geor­ge Floyd. Floyd var grunaður um skjala­fals og var ó­­vopnaður þegar Chau­vin þrengdi að öndunar­vegi hans með því að krjúpa á háls hans sem hafði þær af­­leiðingar að hann lést.

Mikil reiði hefur verið í Banda­ríkjunum undan­farna daga í kjöl­far þessa at­burðar og hafa mót­mælendur safnast saman dag hvern í yfir tuttugu ríkjum Banda­ríkjanna til að mót­mæla. Stjórn­­lausar ó­­eirðir hafa myndast víðs vegar í landinu og hafa fjöl­margir særst og jafn­vel látist í mót­mælunum.