Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, segir að niðurstöður stærstu rannsóknar til þessa sem birtar voru í vísindariti Lancet um að áfengisneysla sé að öllu leyti skaðleg ungu fólki, verði að vera uppi á borðinu þegar ákvarðanir séu teknar um aukið aðgengi að áfengi hér á landi. Í rannsókninni segir að lönd þurfi að grípa til sértækra ráðstafana svo draga megi úr áfengisneyslu ungs fólks.

Hér á landi hefur verið hávær umræða um hið þverstæða, að auka aðgengi að áfengi með netverslun og heimsendingarþjónustu. Valgerður segir að átak gegn unglingadrykkju hafi skilað sér í færri vandamálum meðal ungmenna og færri innlögnum fólks undir 25 ára á Vog. Það gæti orðið skammgóður vermir ef öfl sem vilja stóraukið aðgengi að áfengi fái sínu framgengt.

Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi
Fréttablaðið/Anton Brink

„Áfengi er sérstaklega skaðlegt ungu fólki og við þurfum að vera meðvituð um skaðsemina. Aðgengi stýrir neyslu,“ segir Valgerður.

Meira umburðarlyndi var gagnvart áfengisneyslu ungra Íslendinga fyrr á árum en ekki má láta deigan síga að sögn Valgerðar.

„Áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara. Áfengisneysla er stærsta vímuvandamál heimsins,“ segir Valgerður og brýnir stjórnvöld til að huga vel að næstu skrefum stefnumörkunar.

„Þessar áherslur í pólitíkinni, að auka aðgengi að áfengi, eru áhyggjuefni. Það væri betra að hlusta á vísindin en þrýstihópa er kemur að stefnumörkun stjórnvalda,“ segir Valgerður, sem fagnar brýningu um að ríki heims þurfi að bregðast við nýju niðurstöðunum um meiri skaðsemi áfengis en áður hafi verið talið. Samkvæmt rannsókninni er ekkert til sem kalla mætti skaðlausa hófdrykkju hjá fólki undir fertugu.

Dr. Ársæll Arnarsson prófessor.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ársæll Arnarsson, prófessor á menntavísindasviði Háskóla Íslands, hefur lengi haft umsjá með rannsóknum um unglingadrykkju. Drykkja ungmenna hefur minnkað mikið síðustu áratugi og Ársæll tekur undir með yfirlækni SÁÁ að aukið aðgengi yrði mikið glapræði.

„Við þekkjum flest þetta tvöfalda viðhorf, að við horfum mildum augum á hugmyndina um humar og hvítvín á sama tíma og við þekkjum öll dæmi um hörmungar áfengisneyslu. Aukið aðgengi mun tvímælalaust skila sér í aukinni neyslu og auknum hörmungum,“ segir hann.

Ársæll segir að áfengisframleiðendur hafi sjálfir leynst á bak við tjöldin í rannsóknum um að hófdrykkja kunni að vera heilsubætandi. „Iðnaðurinn vill halda því að okkur að allir megi fá sér. En við vitum betur.“

Þótt flestir geti notað áfengi án skaða þurfi að huga að öllum hliðum. „Við höfum normalíserað ákveðna hegðun, að það sé jafnvel í lagi að missa hausinn við og við,“ segir Ársæll. „Auðvitað er það ekki í lagi og allir sem starfa á lýðheilsuvængnum eru sammála um að það væri mikill afleikur að auka aðgengi að áfengi hér á landi.“

1,3 milljarðar manna neyta áfengis með skaðlegum hætti samkvæmt rannsókninni í Lancet. Karlar eru í yfirgnæfandi meirihluta, meira en þrír af hverjum fjórum sem eiga í vanda eru karlar. Mestur skaði hlýst hjá körlum undir fertugu.