Forvígismenn Alþýðusambands Íslands gagnrýna forgangsröðun stjórnvalda í samgöngumálum harðlega í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í gær. Niðurgreiðslum í umferðinni sé einkum beint til efnamikilla á meðan farþegar Strætó gjaldi hærri skattinn.

Í yfirlýsingunni segir að gjöld í Strætó hafi verið hækkuð umtalsvert á undanförnum árum, auk þess sem þjónusta Strætó hafi verið skert til að mæta hagræðingarkröfu. Framlag ríkisins til Strætó hafi verið rúmur milljarður árið 2021 en 1,8 milljarða til viðbótar hefði þurft til að gera þjónustuna gjaldfrjálsa.

„Til samanburðar námu niðurgreiðslur ríkisins vegna kaupa á rafbílum, tengiltvinnbifreiðum og vetnisbifreiðum 9 milljörðum árið 2021,“ segir þar enn fremur, en samtals hafi ríkið veitt yfir 27 milljörðum í skattaívilnanir vegna vistvænna ökutækja á síðustu tíu árum.

Niðurgreiðsla á nýorkubílum nýtist helst tekjuhærri hópum og megi aðgerðin teljast þjóðhagslega óhagkvæm. Tekjulægri hópar noti almenningssamgöngur í meiri mæli.

Þá segir að engin loftslagsaðgerð stjórnvalda beri jafn mikinn kostnað og ívilnanir vegna nýorkubíla, fyrir utan þá staðreynd að kolefnisfótspor rafbíla sé mun meira en almenningssamgangna.