Lög sem Alþingi samþykkti sumarið 2019 og brot Skipulagsstofnunar á lögum í meðferð á umsókn sjókvíaeldisfélagsins Hábrúnar, mismunuðu fyrirtækinu og gerðu út um framtíðarvöxt þess. Þessu er haldið fram í greinargerð Hábrúnar.

„Árið 2018 þótti ljóst að önnur fyrirtæki voru farin að horfa til þess að koma sér upp aðstöðu í Ísafjarðardjúpi og nánast „teppalögðu“ Djúpið með umsóknum. Þá var ljóst að svo illa yrði þrengt að starfsemi Hábrúnar að vaxtarmöguleikar yrðu engir ef fram héldi sem horfði.

Var því ákveðið að hefja undirbúning að umsókn um 11.500 tonna eldi á regnbogasilungi í Djúpinu,“ er rakið um upphaf málsins, í greinargerð Hábrúnar.

Rifjað er upp að 20. júní 2019 hafi Alþingi samþykkt frumvarp Kristj­áns Þórs Júlíussonar sjávarútvegs- ráðherra um fiskeldi.

Áfram segir að Skipulagsstofnun hafi brotið lög með því að afgreiða ekki umsókn fyrirtækisins um tillögu að matsáætlun vorið 2019. Atvinnuveganefnd Alþingis hafi á síðustu stundu breytt markalínu þess hvaða umsóknir skyldu fylgja úr gömlu lögunum yfir í nýju lögin.

„Nefndin hafði upplýsingar um það að Hábrún, Arnarlax og fleiri félög væru úti með sínar umsóknir samkvæmt þessari breytingu, en lét það sig engu skipta,“ er fullyrt í greinargerðinni. Birtingu laganna hafi verið frestað að beiðni sjávarútvegsráðuneytisins til 18. júlí 2019, í þeim tilgangi að hjálpa fyrirtækjum að koma inn frummatsskýrslu.

„Hábrún, eitt fyrirtækja, var ekki upplýst um þennan frest, kannski vegna þess að umsókn þeirra var ekki afgreidd. Þetta er alvarleg mismunun af hálfu stjórnsýslunnar sem óheimilt er að hygla tilteknum aðilum á kostnað annarra,“ segir í greinargerðinni.

Kristj­án Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra
fréttablaðið/stefán

Afleiðingin hafi orðið sú að umsókn Hábrúnar um 11.500 tonna eldi á regnbogasilungi fengi ekki afgreiðslu samkvæmt gömlu lögunum „heldur væri félaginu gert að bíða eftir útboði nýrra leyfa og bjóða þar í kappi við félög sem flest öll eru nánast alfarið í eigu erlendra eldisrisa“.

Segir Hábrún að með þessu hafi Alþingi gert að engu áform um eðlilegan og nauðsynlegan vöxt félagsins og að „lítið alíslenskt, eldisfyrirtæki væri skilið eftir eitt úti í kuldanum“.

Ábyrgð á lagasetningunni segir Hábrún hvíla á sjávarútvegsráðherra og þáverandi meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis.

„Þetta hentaði sumum fyrirtækjum afar vel, en slátraði möguleikum frumkvöðuls fiskeldis í Ísafjarðardjúpi, Hábrún hf., til að geta byggt upp sjálfbæran rekstur.“