Innlent

Móðir Hauks: „Stjórnvöld eru gagnslaus“

Aðstandendur Hauks Hilmarssonar, sem talinn er hafa fallið í átökunum í Sýrlandi í febrúar síðast liðnum, munu funda með utanríkisráðherra á morgun.

Talið er að Haukur hafi fallið í Afrin í Sýrlandi.

Aðstandendur Hauks Hilmarssonar, sem talinn er hafa fallið í Afrin í Sýrlandi, munu funda með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, utanríkisráðherra, á morgun. Þetta kemur fram í færslu sem móðir Hauks, Eva Hauksdóttir, ritaði á Facebook síðu sinni fyrir skemmstu. Fyrr í kvöld hafði hópur aðstandenda Hauks, þar á meðal unnusta hans og systkini Evu, staðið fyrir utan utanríkisráðuneytið í von um að ná tali af starfsfólki þar. Eva var harðorð í garð stjórnvalda í færslu sinni, en á tímabili taldi hópurinn að til stæði að vísa honum frá. Niðurstaða málsins er þó að hópurinn mun hópurinn funda með utanríkisráðherra á morgun.

 „Stjórnvöld eru gagnslaus. Þau eru öll af vilja gerð en vita bara ekkert hvað þau eiga að gera til þess að fá það staðfest hvort Haukur er lífs eða liðinn,“ sagði Eva meðal annars. „Þau hafa ekki haft beint sambandi við tyrknesk stjórnvöld, bara sendiráð og ræðismenn sem eru með þetta í "ferli", ekki heldur tyrkneska herinn, hvað þá Nató. Lögreglan rannsakar þetta sem mannshvarf en ef svo ólíklega vill til að Haukur sé á lífi þá getur skipt verulegu máli hvort hann finnst klst fyrr eða síðar. Samt gefur ráðuneytið mér engan ádrátt um að redda mér kontakt upplýsingum.“

Talið er að Haukur hafi fallið í stríðsátökunum í Sýrlandi í febrúar síðast liðnum þegar hann barðist með samtökunum YPG, eða The People‘s Protection Units, sem útleggjast mætti sem lýðvarðssveitin á íslensku. Samtökin hafa, ásamt kvenvarðliðinu YPJ, eða Women‘s Defense Units, barist í Afrin-héraði í Sýrlandi undanfarin misseri, þar sem Haukur er sagður hafa týnt lífi. Hauks er minnst víða í Vesturbænum með graffi þar sem búið er að rita orðin  „Lifi Haukur“ víða ásamt merki anarkista.

Íslensk stjórnvöld hafa enn ekki fengið staðfestingu á hvort Haukur hafi í raun og veru fallið í átökunum, en þó er það talið nær fullvíst. Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu er enn unnið að gagnaöflun í samstarfi við ríkislögreglustjóra.

Haukur var mikill baráttumaður gegn hvers kyns óréttlæti og var til að mynda mjög áberandi í búsáhaldabyltingunni hér á landi. Honum er lýst sem hetju á fréttasíðum Kúrda og sagður hafa fallið sem píslarvottur. Samtökin No borders Iceland hafa einnig sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau minnast Hauks og þakka honum fyrir baráttu hans í þágu réttlætisins.

„Með því að berjast gegn bæði Íslamska ríkinu og nýlegri óréttlætanlegri innrás Tyrklandshers inn fyrir landamæri Sýrlands hélt Haukur áfram að leggja sitt af mörkum í baráttu sinni gegn einhverjum fasískustu öflum samtímans. Þannig lifði hann og dó með sinni sannfæringu,“ segja samtökin.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Engin ný smit: Hefja hefð­bunda bólu­setningu á ný

Innlent

Bilun hjá Reiknings­stofu bankanna

Innlent

Starfs­fólk WOW tekur höndum saman

Auglýsing

Nýjast

Jeppa­fólk í vand­ræðum á Lang­­jökli

Óháð rannsókn á hryðjuverkunum í Christchurch

Toyota vinnur að annarri kynslóð GT86

Fundur hafinn hjá ríkis­sátta­semjara

Scott Walker er látinn

Framtíðarsýn Volvo um engin dauðsföll

Auglýsing