Lyfjastofnun hefur gripið til ákveðinna aðgerða til að bregðast við lyfjaskorti. Markmið þeirra er meðal annars að bæta yfirsýn stofnunarinnar yfir stöðuna á hverjum tíma og auðvelda henni þar með að grípa til ráðstafana þegar nauðsyn krefur. 

Fréttablaðið greindi frá því í vikunni að ítrekað hefði komið upp að konur í krabbameinsmeðferð hafi ekki aðgang að nauðsynlegum lyfjum fyrir meðferð sína. Nú síðast er ófáanlegt lyfið Tamoxifen sem er fyrirbyggjandi fyrir endurupptöku sjúkdómsins.

Á vef Stjórnarráðsins er greint frá því að Lyfjastofnun hefði kynnt í október nýtt fyrirkomulag sem felur í sér að apótek megi eiga birgðir óskráðra lyfja á lager án þess að þurfi að liggja fyrir samþykki stofnunarinnar til afgreiðslu undanþágulyfsins. Eftir sem áður er þó afgreiðsla undanþágulyfs háð samþykki Lyfjastofnunar. Með þessari breytingu vonast Lyfjastofnun til að afgreiðsla undanþágulyfja til sjúklinga geti gengið mun hraðar fyrir sig en áður, að því sem fram kemur á vef Stjórnarráðsins. 

Undanþágulyf í sérstökum tilvikum

Lyfjastofnun ákvað fyrr í þessari viku að heimila apótekum í sérstökum tilvikum að afgreiða undanþágulyf áður en formlegt samþykki stofnunarinnar liggi fyrir og er það þá afgreitt með undanþágulyfseðli á pappír. Þetta á við þegar tiltekið lyf er ekki fáanlegt í lengri tíma og brýna nauðsyn ber til að stytta enn afgreiðslutíma frá því sem er þegar seðlar á pappírsformi eru sendir með pósti. 

Þá vinnur stofnunin að uppsetningu tilkynningarhnapps fyrir almenning þar sem hægt verður að senda nafnlausa ábendingu um lyfjaskort á vefnum. Vonast er til að þetta, til viðbótar við tilkynningar frá markaðsleyfishöfum, verði til þess að bæta yfirsýn Lyfjastofnunar þegar lyfjaskortur er annars vegar. Því verði auðveldara að bregðast við birgðaskorti ef grípa þarf til ráðstafana.